Abdubakir Kushbokov hefur birt grein sínu um áhrif beitarfriðunar á fræforðum í jarðvegi á íslenskum afréttum. Greinin birtist í vísindatímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Nálgast má greinina í heild sinni hér.
Abdubakir tók jarðvegssýni innan þar sem tvö mismunandi svæði hafa verið afgirt í sex ár. Var það gert til að meta möguleg áhrif beitarfriðunar sem tæki til endurheimtar vistkerfa á afréttum með því að styrkja fræforða jarðvegsins. Til að meta hann voru fræ í jarðvegssýnunum látin spíra og tegundir bornar saman við samsetningu tegunda sem uxu ofanjarðar. Beitarfriðunin hafði þau áhrif að færri fræ voru í jarðveginum á öðru rannsóknasvæðinu á meðan það hafði engin áhrif á hitt svæðið. Þar sem lítið magn af fræjum finnast í jarðvegi á afréttum má draga af því líkur að áhrif fræforða á endurnýjun gróðurs sé takmarkaður. Það má því segja að beitarfriðun sé ekki áhrifarík sem skammtíma áætlun til styrkingar fræforða í jarðvegi lands sem hefur verið beitt í aldir. Því þarf að skoða fleiri leiðir að auki sem inngrip í endurheimt gróðurs.
Abdubakir var nemi landgræðsluskólans, GRÓ LRT árið 2022. Hann er nú handhafi doktorsnámsstyrks við umhverfisvísindadeild háskólans í Szeged í Ungverjalandi. Doktorsverkefni hans kallast Mat á fræforða jarðvegs til mögulegrar endurheimtar beitarlands í Kyzylkum eyðimörkinni (e. Evaluation of Soil Seed Bank Restoration Potential in Rangelands of Kyzylkum Desert Along Degradation Gradients). Rannsóknir hans munu stuðla að eflingu rannsókna á fræforða í jarðvegi í heimalandi hans, Usbekistan.
Við óskum Abdubakir til hamingju.