Ný grein um áhrif jarðvegshlýnunar í íslenskum graslendum

Ný grein um áhrif hlýnunnar á smádýralíf í íslenskum graslendum, í FORHOT verkefninu sem stendur yfir á Reykjum í Ölfusi, kom nýlega út í vísindaritinu Functional Ecology.

Í þessari rannsókn nýta rannsakendur bæði nýleg (frá jarðskjálftanum 2008) og eldri (hafa verið heit í a.m.k. einhverja áratugi) graslendi á Reykjum og í Grændal í Ölfusi. Þéttleiki, tegundasamsetning og fjölbreytileiki stökkmors (e. Collembola) var rannsakað í “köldum graslendum” og síðan í reitum sem voru mis mikið upphitaðir af jarðhita í berggrunninum undir þeim.

Sú tilgáta var sett fram að eftir því sem dýrin lifðu við hærri hita myndu smávaxnari tegundir vera betur aðlagaðar að aðstæðum og ná yfirhöndinni, en slíkt samband er í rauninni til í náttúrunni þegar samanburður er gerður frá norðri til suðurs á norðurhveli. Einnig var búist við að tegundir sem lifðu á eða nærri yfirborði, þar sem hitasveiflur eru meiri, myndu svara hlýnunni jákvæðar en tegundir sem lifa dýpra í jarðvegi.

Niðurstöðurnar voru þær að tegundasamsetning stökkmors var ekki marktækt ólík á köldum reitum á Reykjum og í Grændal. Alls fundust 12 tegundir stökkmors í graslendunum. Jarðvegshlýnunin olli því að samfélögin breyttust þannig að smávaxnari tegundir urðu meira ríkjandi. Þetta gerðist strax eftir 6 ára hlýnun og breytingin var ekki martækt ólík eftir langtíma hlýnun. Einnig svöruðu tegundir sem lifðu á eða við yfirborð jarðvegs hlýnuninni jákvæðar en tegundir sem lifðu dýpra í jarðvegi. Með því að nota megineinkennafjölbreytileikastuðla (e. trait-based diversity indices; FRic og RaoQ stuðlarnir) kom í ljós að virkni-fjölbreytileiki samfélaganna minnkaði marktækt þegar skammtíma jarðvesthlýnunin varð 10 °C eða meiri, en slíkur þröskuldur í svörun varð ekki þar sem hlýnunin hafði verið til staðar í marga áratugi. Þetta bendir til að samfélög stökkmors geti haft umtalsvert þol gegn hlýnun loftslags og að rannsóknir sem byggja á skammtíma niðurstöðum geti hugsanlega ofmetið áhrif af hlýnun á samfélög jarðvegsdýra.

Meðal höfunda greinarinnar er Bjarni D. Sigurðsson, prófessor í skógfræði við LbhÍ. Alls eru það fjórir starfsmenn LbhÍ sem taka þátt í alþjóðlega FORHOT verkefinu en auk Bjarna eru það Gunnhildur Eva Gunnarsdóttir, Páll Sigurðsson og Úlfur Óskarsson.

Myndir tóku Kjartan Kjartanson og Edda Sigurdís. Fleiri myndir frá verkefninu er að finna á hér.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image