Í vikunni fór fram norrænt meistara- og doktorsnemanámskeið á Hvanneyri og rannsóknasvæði ReWet verkefnisins í Leirársveit. Á námskeiðinu var kennt hvernig mælingar á losun og upptöku gróðurhúsalofttegunda í náttúrulegum og óröskuðum mýrum og framræstu landi eru gerðar og niðurstöður þeirra til að meta áhrif framræslu. Þá var farið í hvernig drónamælingar og gervigreind eru notaðar til að skala punktmælingar upp fyrir stærri svæði. Námskeiðið var kennt samtímis hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, Lundarháskóla í Svíþjóð og Ouluháskóla í Finnlandi. Nemendur og kennarar í öllum þremur löndunum hittust á netinu í lok dags og báru saman bækur sínar til að leita lausna við þeim vandamálum sem skjóta upp kollinum í ferlinu og leysa í sameiningu.
Að námskeiðinu standa Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við LBHÍ, Alejandro Salazar lektor við LBHÍ, Amir Hamidpour doktorsnemi við LBHÍ og Brynhildur Bjarnadóttir frá Háskólanum á Akureyri og er samstarfsverkefni milli LBHÍ, Lundarháskóla í Svíþjóð, Oulu- og Helsinkiháskólanna í Finnlandi og Árósaháskóla í Danmörku með stuðning frá NOVA, ABS og Evrópuverkefninu GreenFeedback.