Jarðhitaskógurinn á Reykjum í Ölfusi er sitkagreni sem gróðursett var 1966 og 1967 í brekkurnar ofan við Fífilbrekku og hús Garðyrkjuskólans. Standandi dauð tré er að finna þar sem meðal jarðvegshiti ársins er meira en þrefaldur (> +15°C) miðað við það sem er í óupphitum skógum. MYND Bjarni Diðrik Sigurðsson

Níu nýjar sveppategundir fundnar á Íslandi

Nýlega birtist grein í vísindaritinu Fungal Ecology frá rannsóknum sem unnar voru á Íslandi undir forustu Landbúnaðarháskóla Íslands (sjá HÉR).

Verkefnið á Íslandi, sem nefnist ForHot, fer fram á löndum LbhÍ á Reykjum í Ölfusi og nýtir sér einstakar aðstæður sem misheitur berggrunnur myndar þar, bæði undir greniskógi og náttúrulegum graslendum. Greinin nefnist „Carbon sequestration and community composition of ectomycorrhizal fungi across a geothermal warming gradient in an Icelandic spruce forest“ sem má útleggja sem „Kolefnisbinding og tegundasamsetning útrænna svepprótasveppa í misheitum jarðvegi undir íslenskum greniskógi“.

Jarðvegshlýnunin undir skóginum á Reykjum hófst í Suðurlandsskjálftanum í 29. maí 2008 og í þessari rannsókn eru áhrifin eftir fimm ára hlýnun metin. Á Suðurlandi er ársmeðalhiti um 5,5 °C og í rannsókninni voru áhrifin af mismikilli jarðvegshlýnun metin, allt að því að vera tvöföldun á ársmeðalhita (+5,5 °C), sem er jafnframt meiri hlýnun en spáð er að gæti orðið í lok aldarinnar vegna loftslagsbreytinga.

Niðurstöðurnar sýndu að þrátt fyrir að trjávöxtur ykist í skóginum við fyrstu +3 °C jarðvegshlýnunina, en minnkaði svo þegar hlýnunin verður meiri en það, þá hélst framleiðni svepprótasveppana nánast óbreytt, og þar með áhrif þeirra á kolefnisbindingu í jarðvegi. Tegundasamsetning þeirra var einnig ótrúlega stöðug, en það vakti athygli hversu fáar tegundir svepprótasveppa fundust miðað við það sem almennt er í náttúrulegum greinskógum austan hafs og vestan. Þar sem grenið er innflutt tegund á Íslandi og sem á sér a.m.k. 120 ára sögu á Suðurlandi, þá bendir þetta til þess að það muni taka enn lengri tíma þar til sveppafunga þess nálgist það sem eðlilegt er í náttúrulegum greniskógum.

Erfðagreining á sveppaþráðum (mýsli) í skóginum leiddi í ljós 24 tegundir sveppa (7. mynd), sem langflestar voru útrænir svepprótasveppir (76% af magni sveppþráða) eða frítt lifandi niðurbrotssveppir (22% af magni sveppþráða). Það sem var e.t.v enn merkilegra, en ekki kemur fram í greininni sjálfri, var að af þessum tegundum höfðu níu þeirra ekki fundist áður á Íslandi, svo vitað sé. Engin þessara tegunda hefur enn fengið íslenskt nafn, en latnesk nöfn þeirra eru: Chalara holubovae, C. hyalocuspica, Ilyonectria rufa, Meliniomyces bicolor, Mortierella amoeboidea, Mor. Horticola, Mor. gamsii, Venturia alpina og Wilcoxina rehmii. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur staðfest þetta og hefur nú bætt þessum tegundum við þekkta fungu landsins.

Þessar niðurstöður frá ForHot með tengingunni á milli hlýnunar og virkni og tegundasamsetningu samlífislífvera (sveppróta) eru mikilvægar til að auka skilning okkar á hugsanlegum áhrifum framtíða hlýnunar á heilbrigði og vöxt íslenskra skóga. Þær bæta einnig við grunnþekkingu okkar á íslenskri náttúru.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image