Út er komið rit nr. 156 i ritröð LBHÍ. Þar er fjallað um áburðartilraunir á höfrum til þroska á tveimur mismunandi jarðvegsgerðum á Hvanneyri 2020. Höfundar eru Sunna Skeggjadóttir, Jónína Svavarsdóttir og Hrannar Smári Hilmarsson.
Hafrar til þroska sem korntegund hafa ekki mikið verið ræktaðir hér á landi en áhugi til þess hefur aukist. Þá hafa þeir talsverða möguleika til ræktunar hér á landi sem vert er að kanna betur og undirbúa útbreiðslu þeirra byggt á niðurstöðum rannsókna.
Hafrar gefa tækifæri til frekari verðmætasköpunar í íslenskum landbúnaði en einnig sérstaklega vel til sáðskipta. Hingað til hafa bændur sem ræktað hafa hafra notast við reynslu og þekkingu úr byggrækt en það er ekki sjálfgefið að þarfir þessara tegunda séu eins. Því er mikilvægt að leggja stund á tæknilegar tilraunir með hafra til þroska eins og gert var með bygg í upphafi innreiðar kornsins á Íslandi.
Árið 2020 voru lagðar út tvær tilraunir með tveimur yrkjum á tveimur jarðvegsgerðum og fimm áburðarskömmtum með hækkandi köfnunarefni frá 0 kg og upp í 120 kg á hektara. Jarðvegsgerðirnar voru frjósöm mýri og rýr melajarðvegur.
Niðurstöður sýndu betri afkomu hafra á melajarðvegi en á mýri bæði þegar kom að gæðum og uppskerumagni. Enn fremur kom í ljós að stórir áburðarskammtar á mýri minnkuðu uppskeruna. Gæðaeiginleikarnir þúsundkornaþyngd, rúmþyngd og þurrefnishlutfall við skurð voru mældir og niðurstöður sýndu að ekki var um marktæk áhrif að ræða með vaxandi áburðarskammti. Samkvæmt þessu getum við ekki mælt með ræktun hafra til þroska á frjósömum mýrum heldur á rýrri jörð þar sem þeir standa sig ef til vill betur en bygg.