Minningarorð um Hólmgeir Björnsson

Minningarorð um Hólmgeir Björnsson

Fyrrum samstarfsmaður okkar, Hólmgeir Björnsson, lést á 88. aldursári á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi að morgni skírdags þann 17. apríl sl. Hólmgeir fæddist þann 18. maí 1937 í Bjarghúsum í Þverárhreppi í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1956 og búfræðikandídat frá Sænska landbúnaðarháskólanum í Ultuna 1961 með jarðvegsfræði sem aðalgrein. Hann stundaði síðan framhaldsnám í líftölfræði við Cornell háskóla í Bandaríkjunum og lauk þar doktorsprófi í desember 1973. Doktorsritgerð hans bar nafnið Analysis of Perennial Crops Experiments with Autocorrelated Errors and Applications to Icelandic Grassland Experiments.

Hólmgeir var aðstoðarkennari á námsárum sínum í Svíþjóð og gerðist síðan aðstoðarmaður við Tilraunastöðina á Akureyri í eitt ár eftir að heim var komið og var jafnframt stundakennari við Menntaskólann á Akureyri. Hann kenndi við Bændaskólann á Hvanneyri 1963-1966 en varð síðan sérfræðingur í tölfræði og skipulagningu tilrauna við Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1969 eftir þriggja ára dvöl á Cornell háskóla. Einnig var hann stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands um skeið. Hann varð prófessor við nýstofnaðan Landbúnaðarháskóla Íslands í ársbyrjun 2005 en lét af störfum vegna aldurs vorið 2007.

Hólmgeir var virkur í rannsóknum og eftir hann liggur fjöldi vísindagreina og fræðsluefni af ýmsu tagi. Hann var okkar helsti sérfræðingur í jarðrækt með áherslu á nýtingu næringarefna og áhrif þeirra á jarðveg og heyfeng. Vegna þekkingar sinnar í tölfræði kom hann að fjölbreyttum viðfangsefnum tengdum jarðrækt, búfjárrækt og fleiri fagsviðum. Hann varð fyrsti ritstjóri Fjölrita Rala 1976 og ritstýrði ársskýrslum frá tilraunastöðvum í jarðrækt í fjölda ára. Þó svo að hann hafi látið formlega af störfum hélt hann fræðastarfi áfram og sat á Keldnaholti löngum stundum. Síðasta framlag hans í þeim efnum birtist í Fjölriti LbhÍ árið 2023.

Hólmgeir var einnig virkur í ýmiskonar félagsstarfi. Hann var stjórnarmaður um skeið í Félagi íslenskra náttúrfræðinga, Félagi íslenskra búfræðikandidata og Íslandsdeild NJF. Hann gerðist formaður Líftölfræðifélagsins við stofnun þess 1983 og vann þar merkt starf við nýyrðasmíð á sviði tölfræði sem birtist í Tölvuorðasafni Skýrslutæknifélags Íslands.

Hólmgeir kvæntist Jónínu Guðmundsdóttur frá Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi 12. maí 1961 og eignuðust þau þrjár dætur, Þorbjörgu f. 1961, Guðrúnu f. 1965 og Hugrúnu Ragnheiði f. 1970. Jónína lést 15. ágúst 2024.

Við þökkum starf Hólmgeirs í þágu skólans og íslensks landbúnaðar og vottum aðstandendum hans innilega samúð.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image