Þorsteinn Guðmundsson jarðvegsfræðingur lést á heimili sínu í Schopfheim í Þýskalandi þann 13. ágúst síðastliðinn eftir erfið veikindi. Þorsteinn fæddist 23. september 1948 að Holti í Svínadal og ólst þar upp. Hann var stúdent frá MA árið 1970 og búfræðikandídat frá Edinborgarháskóla 1974. Hann hóf framhaldsnám við Edinborgarháskóla árið 1974 og lauk doktorsprófi þaðan árið 1978. Sama ár og hann útskrifaðist giftist hann eftirlifandi eiginkonu sinni Ulrike Becher frá Þýskalandi, fædd 26. júní 1950. Þau eiga þrjá syni, Lúkas (f. 1981), Jóhann Andreas (f. 1983) og Kristófer Jónas (f. 1986).
Þorsteinn vann við rannsóknir í jarðvegsfræði við háskólann í Freiburg 1978-1980. Frá 1980-1985 var hann háskólakennari við jarðvegsskor Tækniháskólans í Berlín. Þorsteinn og fjölskylda fluttu svo til Íslands í ársbyrjun 1986. Þar gegndi hann stöðu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri til 1990 en þá flutti fjölskyldan aftur til Þýskalands. Þar sinnti hann heimilisstörfum auk stundakennslu og einstakra verkefna næstu ár. Frá 1999 – 2005 var hann svo í hlutastarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og sinnti þar bæði kennslu og rannsóknum. Eftir að Landbúnaðarháskóli Íslands var stofnaður árið 2005 gegndi hann stöðu prófessors í hlutastarfi þar til að hann fór á eftirlaun 2018.
Þorsteinn skrifaði margar greinar og skýrslur um jarðvegsfræði og árið 2018 kom út stór bók eftir hann sem ber heitið „Jarðvegur – myndun, vist og nýting“. Þá var hann ritstjóri vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences í nokkur ár.
Landbúnaðarháskóli Íslands þakkar Þorsteini fyrir farsæl störf við skólann og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
Útför Þorsteins fer fram í Schopfheim miðvikudaginn 21. ágúst kl. 14:00 að þýskum tíma.