Miklir möguleikar matvælaframleiðslu í gróðurhúsum á Íslandi

Út er komin skýrsla og leiðarvísir til styrkingar og þróunar ylræktar á Íslandi.

 

Í skýrslunni er farið yfir möguleika á eflingu íslenskrar grænmetisframleiðslu í gróðurhúsum. Farið er yfir stöðuna í Hollandi og á Spáni, tveggja af stærstu grænmetisframleiðendum heimsins, og greint hvað það er sem gerir þeirra framleiðslu svo farsæla. Framleiðsluaðferðir landanna tveggja eru bornar saman og greindar með tilliti til tækifæra framleiðslu á Íslandi. Þá er farið yfir möguleika á eflingu ylræktar hér á landi og hvað þyrfti helst að koma til svo að grænmetisframleiðsla geti blómstrað og stækkað svo um munar á sem bestan hátt. Helstu tækifæri Íslands liggja í möguleikum á nýtingu grænnar orku og þar að leiðandi möguleika á að framleiða vöru með lágu kolefnisspori og með hringrásarhugsun að leiðarljósi.

 

Tryggja þarf samstöðu og sameiginlega sýn framleiðenda, stjórnvalda og háskóla. Hollendingar kalla þetta hinn gullna þríhyrning og er lögð mikil áhersla á samvinnu þessara þriggja eininga.

 

Ísland hefur allt til brunns að bera til að geta framleitt matvæli með lágu kolefnisspori og aukið framleiðslu sína. Landbúnaðarháskóla Íslands hefur lagt áherslu á að styrkja enn frekar rannsóknir sínar og alþjóðlegt samstarf. Háskólinn hefur gert samstarfssamninga við tvo stærstu háskóla Hollands og Spánar á sviði ylræktar, Wageningen háskólann í Hollandi og Háskólann í Almeria á Spáni.


Skýrsluna skrifaði Esteban Baeza hjá Future Farms Solutions fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image