Metaðsókn að námskeiðum Endurmenntunar LBHÍ

Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) hefur um árabil haldið réttindanámskeið í dúnmati sem ber heitið Æðarrækt og æðardúnn og er haldið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Æðarræktarfélag Íslands. Eftirspurn er langt umfram væntingar og 45 manns skráðir á námskeiðið sem hefst á morgun. 

Enn fremur er metaðsókn á námskeiðið Meðferð varnarefna og útrýmingarefna í landbúnaði, garðyrkju og meindýravörnum sem haldið er í samstarfi við Umhverfisstofnun, Vinnueftirlitið og Landssamtök meindýraeyða. Námskeiðið er réttindanámskeið og er fjöldi þátttakenda um helmingi fleiri en þegar námskeiðið var haldið síðast eða 40 manns.  

Fleiri námskeið hafa notið mikilla vinsælda og hefur Endurmenntun LBHÍ bætt við fjölda námskeiða á síðustu vikum til að mæta eftirspurn, má þar nefna námskeið í trjáfellingum, matjurtaræktun í köldum gróðurhúsum, tálgun, torf og grjóthleðslu og umhirðu pottaplantna.

Endurmenntun mun bjóða upp á fjöldann allan af nýjum og áhugaverðum námskeiðum fram á sumar, þeirra á meðal eru námskeið í kræklingatínslu, verkun og matreiðslu kræklings, námskeið fyrir þá sem vilja læra að velja rétta bakpokann og búnaðinn í útivistina, hugarþjálfunarnámskeið í reiðmennsku fyrir keppnisknapa, námskeið fyrir þá sem vilja dýpka skynjun sína og upplifun af sjónrænum þáttum í íslensku landslagi, GPS námskeið fyrir þá sem vilja læra hvernig beri að nýta tækin við gerð leiða og ferla og námskeið í gerð páska- og vorskreytinga úr náttúruefnum. Fleiri námskeið munu bætast við fram á sumar, má þar nefna námskeið um uppbyggingu ferðamannastaða, endurheimt staðargróðurs og torf- og grjóthleðslu á ferðamannastöðum.

Námskeið Endurmenntunar LBHÍ byggja á góðri reynslu og veita þátttakendum verklega og fræðilega þekkingu á breiðu sviði sem nýtast vel í leik og starfi. Kynntu þér fjölbreytt framboð á Endurmenntunar, við munum taka vel á móti þér.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image