Ráðherra kynnti sér aðstöðu skólans á Hvanneyri, Keldnaholti og Reykjum. Hér er hluti hópsins í bananahúsinu á Reykjum.

Menntamálaráðherra heimsækir Landbúnaðarháskóla Íslands

Farið var yfir stöðu framkvæmda á Reykjum með Framkvæmdasýslu ríkisins.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti starfsstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands og fundaði með fulltrúum skólans í gær. Byrjað var á Hvanneyri þar sem málin voru rædd og meðal annars farið yfir stöðu garðyrkjunáms á framhaldsskólastigi. Starfshópur um málið var skipaður af ráðuneytinu í nóvember á síðasta ári og lauk vinnu sinni í sumar þar sem skilað var inn sérálitum. Með ráðherra í för voru starfsmenn ráðuneytisins. Hópurinn skoðaði svo starfsaðstöðuna á Hvanneyri, Keldnaholti og Reykjum. Á Reykjum standa yfir endurbætur á garðskálanum og viðgerðir á leka sem varð og olli því að ekki var hægt að hefja kennslu þar í haust. Stefnt er að því að viðgerðum ljúki í árslok og að nemendur geti hafið nýja skólaönn á Reykjum eftir áramót. 

Landbúnaðarháskólinn vill styrkja garðyrkjunám og innviði og setti fram stefnu um framtíðarsýn sína fyrir um ári síðan. Í kjölfarið fylgdu svo skipuritsbreytingar þar sem brautum skólans er skipt á þrjár fagdeildir og innan þeirra eru skólastigin þrjú skýrt aðskilin, starfsmenntanám á framhaldsskólastigi, grunnnám (BSc) og framhaldsnám (MSc og PhD). Yfir starfsmenntanáminu er starfsmenntanámsstjóri. Á starfsmenntanámsstigi eru kenndar garðyrkjubrautir (Ylrækt, lífræn ræktun matjurta, garð- og skógarplöntur, blómaskreytingar, skógur og náttúra) og skrúðgarðyrkju sem er löggilt iðnnám og lýkur með sveinsprófi ásamt búfræði. Á Reykjum er allt starfsmenntanám í garðyrkju og búfræði er kennd á Hvanneyri. Í grunn- og framhaldsnámi eru svo sjö brautir sem kenndar eru á Hvanneyri og Keldnaholti. Fagdeildirnar þrjár eru Ræktun & fæða, Náttúra & skógur og Skipulag & hönnun. Á Reykjum fara einnig fram rannsóknir bæði í garðyrkju sem og skóg- og umhverfisfræðum.

Skólinn hefur um hríð verið í samstarfi við Menntaskóla Borgarfjarðar um sameiginlega braut sem veitir stúdentsgráðu og búfræðipróf. Þetta samstarf var í vor útvíkkað til garðyrkjubrauta þannig að nú býðst nemendum að hefja nám í MB og fara svo í garðyrkju eða búfræði og útskrifast svo sem stúdent og garðyrkjufræðingur eða búfræðingur. Sambærilegur samstarfssamningur var undirritaður við Fjölbrautaskóla Suðurlands í sumar.

Allar starfsmenntanámsbrautir eru kenndar eftir námskrám samþykktum af fagnefndum 2017. Unnið er eftir þeim og ekki eru áætlanir um breytingar þar á. Námsbrautalýsingar í starfsnámi byggja á starfalýsingum og hæfnikröfum sem starfsgreinaráðin skilgreina. Einnig veita ráðin umsögn um námsbrautalýsingar í starfsnámi sem skólar sækja um staðfestingu á. Fagnefndir skulu vera starfandi fyrir hverja námsbraut. Fagnefndir eru skipaðar til 4 ára í senn og í þeim sitja fulltrúar skólans, atvinnulífsins og viðkomandi fagfélaga. Hlutverk fagnefnda er að vera skólanum til ráðgjafar um skipulag námsins, námsefni og endurmenntun. Brautarstjóri viðkomandi brautar er fulltrúi skólans í viðkomandi fagnefnd og jafnframt formaður nefndarinnar. Endurmenntunarstjóri stofnunarinnar situr fundi fagnefnda og samræmir hugmyndir að endurmenntunarnámskeiðum.

Nánar um starfsreglur starfsmenntanáms hér.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image