Meistaravörn í skipulagsfræði – Hugrún Harpa Björnsdóttir

Meistaravörn í skipulagsfræði – Hugrún Harpa Björnsdóttir

Hugrún Harpa Björnsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði: „Götukappakstursbraut á höfuðborgarsvæðinu –Raunhæfur möguleiki?“ við deild Skipulags og hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeinendur Hugrúnar Hörpu eru Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Erna Bára Hreinsdóttir. Prófdómari er Katrín Halldórsdóttir, forstöðumaður hjóla- og göngustíga Betri samgöngur.

 

Meistaravörnin fer fram miðvikudaginn 19. mars 2025 kl. 14:00 í Sauðafelli, 3. hæð á Keldnaholti í Reykjavík og á Teams og er opin öllum.

 

Ágrip

Áhugi á tímabundnum akstursíþróttakeppnum í borgum, sérstaklega Formúlu 1 og Formúlu E, hefur aukist á undanförnum árum. Markmið viðburðanna er að auka aðdáendahóp akstursíþróttarinnar með því að færa viðburðinn nær íbúum. Slíkir viðburðir geta verið hvati til breytinga í borgarskipulagi. Viðfangsefnið er mikilvægt þar sem það fjallar um samspil tímabundinna akstursíþróttaviðburða og skipulagsmála. Þessir viðburðir eru bæði tækifæri og áskoranir fyrir borgirnar. Tækifærin geta falist í möguleikum á enduruppbyggingu á borgarsvæðum og eflingu ferðaþjónustu en áskoranirnar snúa að umferðaröryggi og truflunum á daglegu lífi íbúa. Þrátt fyrir aukinn áhuga á rannsóknum á áhrifum kappakstursviðburða á borgir, hefur samspil þeirra við borgarskipulag verið lítið rannsakað. Markmið verkefnisins er að greina tækifæri og áskoranir götukappakstursbrautar á höfuðborgarsvæðinu. Skoðað er hvort, og þá hvar, mögulegt er að koma upp götukappakstursbraut á höfuðborgarsvæðinu og hver tækifæri og neikvæð áhrif slíkrar framkvæmdar eru á nærliggjandi samfélag. Verkefnið byggir á eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum þar sem heimildavinna og viðtalsrannsóknir voru notaðar til að greina tækifæri og neikvæð áhrif götukappakstursbrauta. Viðmið og kröfur Alþjóðlega akstursíþróttasambandsins (FIA) fyrir kappakstursbrautir voru greind með sérstaka áherslu á þætti sem tengjast borgarumhverfi. Viðmiðin voru síðan notuð til að greina þrjá staði (kosti) á höfuðborgarsvæðinu sem gætu hentað fyrir götukappakstursbraut.

Kostirnir voru að lokum skoðaðir nánar í tengslum við tækifæri og neikvæð áhrif á nærliggjandi samfélag. Þrír staðir voru metnir hentugir fyrir götukappakstursbraut. Þeir eru:

  • Sæbraut – Snorrabraut – Miklabraut – Kringlumýrarbraut
  • Vesturlandsvegur – Suðurlandsvegur
  • Sæbraut – Katrínartún – Laugavegur – Kringlumýrarbraut

Þeir þóttu hafa mismunandi kosti og galla en einn þeirra er talinn henta betur en hinir. Niðurstöðurnar gefa til kynna að hægt er að halda götukappaksturskeppni innan höfuðborgarsvæðisins en keppnin krefst þó viðamikla breytinga á borgarumhverfinu. Þessar breytingar tengjast enduruppbyggingu á núverandi atvinnusvæði, eflingu á flóttaleiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu og endurbætur á samgönguinnviðum. Verkefnið sýnir að hægt er að nýta núverandi innviði í öðrum tilgangi en þeir voru upphaflega hannaðir fyrir, og að slík nýting geti haft áhrif á framtíðarskipulag borga.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image