Þórdís Þórarinsdóttir ver meistararitgerð sína í búvísindum

Meistaravörn Þórdísar Þórarinsdóttur í búvísindum

Þórdís Þórarinsdóttir ver meistararitgerð sína í búvísindum við Ræktunar og fæðudeild Landbúnaðarháskóla Íslands, og nefnist hún upp á íslensku „Erfðastuðlar og erfðaþróun frjósemiseiginleika í íslenska kúastofninum“, en á ensku er titillinn „Genetic Parameters and Genetic Trends of Female Fertility in Icelandic Dairy Cattle”.

Leiðbeinendur Þórdísar eru dr. Elsa Albertsdóttir hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og dr. Susanne Eriksson hjá Sænska landbúnaðarháskólanum (SLU). Emma Eyþórsdóttir, dósent við LbhÍ, er ábyrgðarmaður háskólans með verkefninu. Prófdómari er dr. Ágúst Sigurðsson, kynbótafræðingur og sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Í ljósi aðstæðna fer vörnin fram á internetinu, í gegnum Zoom fjarfundabúnað, kl. 14.00 mánudaginn 27. apríl 2020. Allir áhugasamir eru velkomnir að tengja sig inn á vörnina, og er hlekkurinn á zoomið hér. Við biðjum þá sem vilja tengja sig að hafa gert það í síðsta lagi kl. 13:50. Jafnframt eru þeir beðnir að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip ritgerðarinnar 

Kynbótamat fyrir frjósemi í íslenskum kúm hefur farið lækkandi þrátt fyrir að frjósemi, táknuð sem bil milli burða, hafi verið hluti af kynbótaeinkun íslenska kúastofnsins síðan 1993. Góð frjósemi er undirstaða í mjólkurframleiðslu en nýleg breyting á kynbótamati fyrir mjólkurframleiðslu í mælidagalíkan hefur breytt forsendum þess að nota burðarbil sem frjósemiseiginleika. Markmið þessarar rannsóknar var að meta erfðastuðla og erfðaþróun frjósemiseiginleika í íslenskum kúm og koma með tillögu að nýjum eiginleikum fyrir kynbótamat. Sæðingar á fyrstu þremur mjaltaskeiðum og kvígusæðingar hjá 52.951 íslenskum kúm voru notaðar við rannsóknina. Samband frjósemi og afurða var einnig rannsakað. Frjósemiseiginleikarnir sem voru rannsakaðir eru fanghlutfall við fyrstu sæðingu, fjöldi sæðinga á sæðingatímabili, bil milli fyrstu og síðustu sæðingar, bil milli burðar og fyrstu sæðingar, bil milli burðar og síðustu sæðingar og bil milli burða. Fimm línuleg líkön voru notuð til að meta erfðastuðla eiginleikanna. Kynbótagildi fyrir frjósemiseiginleikana voru metin og erfðaþróun eiginleikanna var könnuð.

Meðaltöl svipfarseiginleika fanghlutfalls og fjölda sæðinga voru hagstæðari hjá kvígum en hjá mjólkandi kúm. Arfgengi var lágt fyrir alla frjósemiseiginleikana, bæði þegar notuð voru fjölbreytulíkön (0,01 – 0,08) og líkan með einum eiginleika (0,02 – 0,06). Hæsta arfgengi var á eiginleikanum bil milli burðar og fyrstu sæðingar á öðru mjaltaskeiði og lægsta arfgengi var metið fyrir kvígu eiginleikana. Arfgengi afurðaeiginleika í rannsókninni var hærra en fyrir frjósemiseiginleika (0,15 – 0,25). Erfðafylgni á milli kvígumælinga og mælinga í mjólkandi kúm innan sama eiginleika var á bilinu 0,23 til 0,81. Erfðafylgni á milli mjaltaskeiða innan sama eiginleika var á bilinu 0,36 til 1,00. Erfðafylgni á milli kvígueiginleika var sterk. Erfðafylgni á milli mismunandi frjósemiseiginleika var allt frá því að vera veik (-0,17) upp í vera mjög sterk (0,97). Erfðafylgni var hófleg en óhagstæð á milli afurðaeiginleika og frjósemiseiginleikanna fjöldi sæðinga, bil milli fyrstu og síðustu sæðingar, bil milli burðar og síðustu sæðingar og bil milli burða. Veikari fylgni var á milli afurða og frjósemiseiginleikanna bil milli burðar og fyrstu sæðingar og fanghlutfalls. Erfðaþróun virtist óhagstæð fyrir eiginleikana fjöldi sæðinga, bil milli fyrstu og síðustu sæðingar og bil milli burða en hagstæð fyrir bil milli burðar og fyrstu sæðingar og bil milli burðar og síðustu sæðingar.

Ekki ætti að skilgreina frjósemi óborinna kvígna og frjósemi mjólkandi kúa sem sama eiginleikann. Frjósemi á mismunandi mjaltaskeiðum ætti að skilgreina sem mismunandi eiginleika með sterka fylgni. Mælt er með að frjósemiseiginleikarnir bil milli burðar og fyrstu sæðingar og bil milli fyrstu og síðustu sæðingar verði notaðir til að meta frjósemi í mjólkandi kúm í nýju kynbótamati. Einnig að eiginleikinn fanghlutfall við fyrstu sæðingu verði notaður til að meta frjósemi óborinna kvígna. Fylgni á milli metinna kynbótagilda gefa til kynna að uppröðun sæðinganauta myndi breytast með nýju mati á frjósemi.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image