Meistaravörn í skipulagsfræði - Halldór Jón Björgvinsson

Halldór Jón Björgvinsson ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði 27. maí n.k. kl 15

Meistaravörn í skipulagsfræði - Halldór Jón Björgvinsson

Halldór Jón Björgvinsson ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði „Brúin á Skeiðarársandi og önnur sérstæð útivistarsvæði” við deild Skipulags og hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.  

Leiðbeinandi Halldórs Jóns er Dr. Sigríður Kristjánsdóttir, skipulagsfræðingur og  sjálfstætt starfandi fræðimaður og meðleiðbeinandi er Sverrir Örvar Sverrisson, skipulagsfræðingur hjá Vegagerðinni. 

Prófdómari er Dr. Bjarni Reynarsson, doktor í landfræði og skipulagsfræði.  

Meistaravörnin fer fram mánudaginn 27. maí 2024 kl. 15:00 í Sauðafelli 3. hæð, Keldnaholti Reykjavík og á Teams og er opin öllum.   

 

Ágrip 

Aflögð samgöngumannvirki má finna víða og er ekki algengt að þau fái ný hlutverk. Nokkur þekkt dæmi eru þó um slíkt og má finna þau víða um heim. The High Line í New York eru gamlir lestarteinar sem fengið hafa nýtt hlutverk í dag sem útivistarsvæði sem liggur eftir gömlu lestarteinunum á miðri Manhattan. Promenade Plantée eru gamlir lestarteinar í miðri Parísarborg sem þjóna núna sem göngu- og útivistarsvæði fyrir íbúa stórborgarinnar. Verslun og þjónusta hefur einnig blómstrað undir gömlu lestarteinunum sem voru byggðir á upphækkun fyrir ofan götur borgarinnar. Fyrrverandi alþjóðaflugvöllurinn í Berlínarborg, Tempelhof, er í dag nýttur sem stórt útivistarsvæði í miðri Berlín. Flugbrautir og akvegir hafa fengið að halda sér og eru í dag nýttir til útivistar af ýmsu tagi þar sem nóg pláss er fyrir alla þá sem þangað koma. Á Íslandi eru ekki aflagðir lestarteinar eða flugvellir til að breyta í útivistarsvæði en við eigum merkilegt mannvirki sem fyrir ekki svo mörgum árum gjörbreytti samgöngum á landinu, en það er Skeiðarárbrú sem núna hefur lokið hlutverki sínu. Breytingar á loftslagi og bráðnun jökla hafa orðið til þess að þessi lengsta brú landsins stendur nú á þurru og getur ef til vill fengið önnur not í framtíðinni.  

Þessi erlendu dæmi um óvenjuleg útivistarsvæði verða skoðuð ásamt því að kanna sögu og notkunarmöguleika Skeiðarárbrúar til framtíðar með það að markmiði að brúin öðlist nýtt líf. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image