Díana Berglind Valbergsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði: „Forsendur staðarvals matvöruverslana í Reykjavík. Markaðshagsmunir og sjálfbærnisjónarmið“ við deild og hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinandi Díönu er Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands (aðalleiðbeinandi) og meðleiðbeinendur eru Dr. Emmanuel Pierre Pagneux, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Dr. Lúðvík Elíasson hagfræðingur
Prófdómari er Haraldur Sigurðsson, skipulagsfræðingur (Msc.) deildarstjóri aðalskipulags, Reykjavíkurborg.
Meistaravörnin fer fram mánudaginn 27. maí 2024 kl. 13:00 í Sauðafelli 3. hæð, Keldnaholti Reykjavík og á Teams og er opin öllum.
Ágrip
Þessi rannsókn fjallar um samband hugmynda um sjálfbært hverfisskipulag og staðsetningar matvöruverslana í Reykjavík. Markmiðið með slíku hverfisskipulagi er að stuðla að virkum ferðamátum og efla aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, sérstaklega matvöruverslunum sem selja það sem flokkast undir „daglegar þarfir“. Með notkun hugtaka þjónustukjarnakenningarinnar (e. central place theory) sem ramma, og útreikningum á mannfjölda og myndrænni framsetningu í landupplýsingakerfi ArcGIS Pro, leiðir rannsóknin í ljós að 36% Reykvíkinga hafa ekki kost á því að ganga í matvöruverslun á 10 mínútum eða minna. Alls 14 matvöruverslanir af 30 hafa ekki nægilegan íbúafjölda í göngufæri til þess að verslunin geti verið með farsælan rekstur eingöngu með íbúum í göngufæri og reiða sig því á bílaumferð. Einnig komu í ljós nokkur hverfi þar sem skortur er á fullnægjandi aðgengi að matvöruverslunum í 10 mínútna göngufjarlægð.
Jafnframt er kafað í ferli ákvarðanatöku sem eigendur matvöruverslana nota við val á staðsetningu fyrir matvöruverslun, sem er tekin á markaðsforsendum. Sú innsýn er mikilvæg til þess að öðlast betri skilning á markaðssjónarhorninu sem er ekki alltaf í góðu samræmi við hugmyndir um sjálfbæra byggðaþróun. Með því að taka hugmyndafræði verslunaraðila með í reikninginn, er gerð greining á mögulegum nýjum staðsetningum fyrir matvöruverslanir til þess að bæta þekju þjónustusvæðis og þar með fjölga þeim íbúum sem hafa kost á því að fara þangað með virkum ferðamátum á 10 mínútum.
Þessi rannsókn er innlegg í umræðu um landfræðilega dreifingu matvöruverslana og hvernig hún tengist sjálfbæru skipulagi. Leitast er við að greina flókið samspil hugmynda um sjálfbær hverfi og rekstrarforsendur markaðsaðila. Niðurstöður benda til þess að tækifæri séu til úrbóta, sem væru skref í átt að sjálfbærri byggðaþróun.