Meistaravörn í náttúru- og umhverfisfræði – Hulda Birna Albertsdóttir

Meistaravörn í náttúru- og umhverfisfræði – Hulda Birna Albertsdóttir

Hulda Birna Albertsdóttir ver meistararitgerð sína í Náttúru - og umhverfisfræði ,,Uppgræðsla ofanflóðavarna: Skipulag, framkvæmd og árangur við endurheimt staðargróðurs” við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands. 

Leiðbeinandi Huldu Birnu er dr. Ása L. Aradóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og  meðleiðbeinandi er Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri hjá Orku náttúrunnar. 

Prófdómari er dr. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Sjálfbærnistofnunar Háskóla Íslands. 

Meistaravörnin fer fram þriðjudaginn 28. maí 2024 kl. 15:00 í Sauðafelli 3. hæð, Keldnaholti Reykjavík og á Teams og er opin öllum.  

 

Ágrip 

Ofanflóðavarnir eru víða taldar nauðsynlegar til að verja byggðir en oft er um að ræða umfangsmiklar framkvæmdir sem geta raskað náttúrulegu gróðurfari. Bygging þeirra getur haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni sem er mikilvæg fyrir virkni vistkerfa og undirstaða margvíslegrar þjónustu þeirra. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á framkvæmd uppgræðslu ofanflóðavarna á Vestfjörðum, þ.e. undirbúning, innleiðingu, árangur og eftirfylgni, með það að leiðarljósi að greina vankanta á ferlinu sem komið geta í veg fyrir að uppgræðslumarkmið náist. Gagnaöflunin náði til átta ofanflóðaframkvæmda þar sem byggðir voru þvergarðar og leiðigarðar. Úr greiningu á þeim voru valdar framkvæmdir á tveimur stöðum, í Bolungarvík og undir Kubba á Ísafirði, til að kanna endurheimt staðargróðurs og möguleg afdrif sáðtegunda, átta árum eftir að uppgræðsla hófst. Á hvorum stað voru gerðar gróðurfarsmælingar á þremur mismunandi svæðum: á vörnunum, í fjallshlíðinni bak við varnirnar og á óröskuðu viðmiðunarsvæði. Niðurstöðurnar voru settar í samhengi við staðla alþjóðlegu vistheimtarsamtakanna, Society for Ecological Restoration (SER) og aðrar rannsóknir sem tengjast vistheimt, árangursmati og eftirliti. 

Ofanflóðaframkvæmdirnar á Vestfjörðum sem gagnaöflunin náði yfir voru misstórar og fyrir þær allar var gerð áætlun um uppgræðslu með grasfræi yfirleitt í bland við hvítsmára og stundum birki. Í áætlunum voru sett fram uppgræðslumarkmið sem voru að mörgu leiti skýr og metnaðarfull. Í flestum tilfellum voru lagðar til einhverjar aðgerðir til að endurheimta staðargróður sem þó voru ekki hluti af meginmarkmiðum. Niðurstöðurnar sýndu einhverja hnökra á flestum stigum framkvæmdanna:1) markmið um uppgræðslu skiluðu sér illa í  innleiðingu framkvæmdanna, 2) þeim var ekki nákvæmlega fylgt eftir og 3) eftirfylgni, inngrip og vöktun var ekki notuð til leiðréttandi aðgerða til að uppfylla sett markmið. Ekkert virðist hafa gert til að sporna við dreifingu ágengra tegunda. Að því er séð verður var samráð við hagaðila í verkefnisferlinum takmarkað. 

Tegundasamsetning gróðurs á framkvæmdasvæðunum (varnir, bak við varnir) undir Kubba og í Bolungarvík átta árum eftir að uppgræðsla hófst var breytileg og almennt mjög ólík staðargróðri á viðmiðunarsvæðunum. Tegundaauðgi æðplöntutegunda var mest á viðmiðunarsvæðum en minnst á vörnunum sjálfum. Á framkvæmdarsvæðunum var þekja sáðgrasa enn mikil en þekja annarra grasa mjög lítil. Mosar voru farnir að nema land en þar fundust engir smárunnar og ekki heldur tré eða runnar, nema þau sem gróðursett voru á framkvæmdarsvæðinu á Ísafirði. Þekja blómjurta var frekar mikil þar sem alaskalúpína var mjög útbreidd, sérstaklega í Bolungarvík. Aðrir tegundahópar höfðu mjög litla þekju. Þessar niðurstöður benda til þess að endurheimt náttúrulegs gróðurs á framkvæmdarsvæðunum hafi verið afar takmörkuð og sáðgrös enn ríkjandi. Það getur stafað af ýmsum orsökum, svo sem tiltölulega stuttum tíma frá sáningu, vali á uppgræðsluaðferðum og útbreiðslu alaskalúpínu sem ekki hefur verið haft hemil á. 

Niðurstöður verkefnisins sýndu að uppgræðsla framkvæmdasvæðanna hefði ekki stuðlað að endurheimt líffræðilegar fjölbreytni, eins og lög um náttúruvernd (nr. 60/2013) kveða á um. Þar sást einnig að skortur var á vöktun og árangursmati við framkvæmdirnar sem líklega hefði getað skilað betri árangri í uppgræðslunni, þar sem hægt hefði verið að stíga inn í framvinduferlið og m.a. að halda ágengum tegundum í skefjum. Mikilvægt er að markmiðasetning varðandi endurheimt staðargróðurs og aðra uppgræðslu og vöktun eigi sér stað við frumhönnun og að þeim markmiðum sé fylgt eftir í gegnum undirbúnings-, framkvæmdar- og eftirlitsferlið með ástandsmati og viðbótaraðgerðum.  

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image