Meistaravörn Sigurður Max Jónsson Búvísindi

Sigurður Max Jónsson ver meistararitgerð sína í búvísindum

Meistaravörn í búvísindum. Sigurður Max Jónsson.

Sigurður Max Jónsson ver meistararitgerð sína í búvísindum “Samanburður á sýnatökudýpt, skolaðferðum og ýmsum eiginleikum jarðvegs fyrir mismunandi næringarefni: Til að styrkja áburðarleiðbeiningar fyrir bændur“ við deild Ræktunar & Fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeinendur Sigurðar voru Þorsteinn Guðmundsson doktor í jarðvegsfræði og Arngrímur Thorlacius doktor í efnafræði. Meistaravörnin fer fram fimmtudaginn 30. júní 2022 kl. 13:00 við Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík, Árleyni 22.

Hlekkur á Zoomfund hér. Athugið að vera komin inn kl 12.50 og slökkva á hljóðnema. 

Ágrip

Stöðugt þarf að fylgjast með heilsu og frjósemi landbúnaðarjarðvegs til að viðhalda framleiðni hans til matvælaframleiðslu og annarrar þjónustu sem jarðvegurinn veitir. Til að takast á við vaxandi áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir, þurfum við stöðugt að meta þekkingu okkar og þróa verkfæri til að viðhalda heilbrigði og næringarefnajafnvægi jarðvegs. Í þessari rannsókn voru niðurstöðum úr jarðvegsefnagreningum safnað frá árunum 2000-2014 og þær notaðar til að meta almennt næringarástand landbúnaðarjarðvegs á landsvísu. Í þessari rannsókn var sýnum einnig safnað til að bera saman tvær sýnatökudýptir (0-5 cm á móti 0-10 cm) fyrir nokkra eðlis- og efnafræðilega eiginleika sem og fyrir öll aðalnæringarefni jarðvegs, utan köfnunarefnis og þriggja snefilefna, mangans, sinks og kopars. Í þessarri rannsókn eru einnig bornar saman tvær skolaðferðir, gerðar við jarðvegsefnagreningar fyrir bændur og aðra ræktendur. Annars vegar Ammóníum Lactate (AL), aðferð sem hefur verið notuð á Íslandi í áratugi og hins vegar Mehlich 3 (M3), nýrri aðferð sem var þróuð til þess að skola út snefilefni, jafnt sem aðalnæringarefni úr jarðvegi. Tilraun var gerð til að flokka næringarefni jarðvegsins eftir sýrustigi, rúmþyngd eða lífrænu innihaldi hans. Línuleg fylgni var gerð fyrir ýmis plöntunæringarefni og jarðvegseiginleika, sem ekki eru mæld í almennum jarðvegsefnagreningum fyrir íslenskan landbúnað.

Niðurstöður úr gagnasafni frá árunum 2000-2014 leiddu í ljós að fosfór og kalíum voru algengustu næringarefnin sem skorti til að ná viðunandi uppskeru. Að meðaltali lækkaði styrkur næringarefna með aukinni sýnatökudýpt en magn allra þeirra jókst, nema fosfórs, sem breyttist ekkert. Bæði styrkur og magn kopars var lágt í jarðvegssýnum, en með aukinni sýnatökudýpt jókst magnið fjórfalt. Samanburður á skolaðferðum sýndi að AL-aðferðin dró að meðaltali meira af næringarefnum úr jarðvegnum, en M3 aðferðin. Línuleg fylgni milli aðferðanna var mest fyrir kalsíum, R2=0,9, en fyrir önnur aðalnæringarefni var R2≈0,8. Með því að flokka jarðvegsniðurstöður eftir sýrustigi, rúmþyngd eða lífrænu innihaldi jarðvegs, kom í ljós að magn næringarefnanna fosfórs og kalíums, sem eru mikið notuð í landbúnaði, urðu ekki fyrir áhrifum af þessum eiginleikum jarðvegs. Magn kalsíums, magnesíums og brennisteins voru hinsvegar háðar þessum eiginleikum. Snefilefni sýndu litla fylgni á milli áðurnefndra jarðvegseiginleika. Línuleg fylgni milli lífræns innihalds í jarðvegi, kolefnis og köfnunarefnis í jarðvegi er mjög mikil (R2>0,95). Það bíður upp á að skipta kostnaðarsamri aðferð út fyrir einfaldari og mun ódýrari aðferð, til að mæla köfnunarefnisinnihald jarðvegs.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image