Meistaravörn: Helgi Elí Hálfdánarson

Fimmtudaginn 4. júní nk. ver Helgi Elí Hálfdánarson meistararitgerð sína, Framleiðsla etanóls úr vallarfoxgrasi, við auðlindadeild LbhÍ. Leiðbeinendur eru Þóroddur Sveinsson og Jóhann Örlygsson. Prófdómari er Guðmundur Óli Hreggviðsson. Athöfnin fer fram í Borg í Ásgarði og hefst kl 11.00. Allir velkomnir.

 

 

Í útdrætti ritgerðar segir:

Þverrandi birgðir jarðefnaeldsneytis og umhverfisáhrif þess hafa aukið áhuga á öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum. Framleiðsla lífetanóls með annars stigs gerjun á vallarfoxgrasi er áhugaverður kostur. Í þessu verkefni voru skoðuð áhrif mismunandi sláttutíma á etanól uppskeru. Örverur sem notaðar voru til etanól framleiðslunnar voru: Clostridium thermocellum, Thermoanaerobacter ethanolicus, Thermoanaerobacter stofn J1, Zymomonas mobilis, Kluyveromyces marxianus og Saccharomyces cerevisiae. Vallarfoxgrasið var slegið sumarið 2014 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Borin voru saman fjögur þroskastig vallarfoxgrassins: blaðvöxtur (H1), mið-skriðtími (H2), eftir skrið (H3) og að lokinni blómgun (H4). Niðurstöður verkefnisins benda til þess að sláttutími vallarfoxgrass hafi marktæk áhrif á etanól uppskeru (mM/L). Það var þó ekki marktækur munur fyrir alla sláttutíma né fyrir alla örverustofna sem notaðir voru. Oft var marktækur munur á etanól framleiðslu milli snemmslegna grassins og því síðarslegna. Það reyndist ekki mikill munur á skilvirkni etanól framleiðslunnar milli sláttutíma. Það var yfirleitt marktækur munur á fyrsta sláttutímanum samanborið við hina þrjá. Þegar framleiðslan var reiknuð yfir á einingu lands (L/ha), reyndist í flestum tilfellum marktækur munur á etanól uppskeru milli sláttutíma fyrir miðskriðtíma (H1 og H2) og svo eftir skrið (H3 og H4). Sveppurinn S. cerevisiae skilaði bestu skilvirkni etanól framleiðslunnar á öðrum sláttutíma (H2), alls 346 L/t þe. S. cerevisiae skilaði jafnframt mestri etanól framleiðslu umreiknað á einingu lands, eða 2.211 L/ha. Miðað við að á Íslandi sé mögulegt ræktarland til stórframleiðslu orkujurta um 420 km2, þá ætti að vera hægt að framleiða um 92,9 milljónir lítra af etanóli með þessari aðferð. Þá kom fram í verkefninu að leysanleiki vallarfoxgrass reyndist vera á bilinu 50-79%. Það þýðir að umtalsvert hrat verður til við framleiðsluna. Mikilvægt er að setja upp rannsóknir til að kanna hver möguleg afnot hratsins gætu verið og hvert áburðargildi þess er.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image