Guðrún Lára Sveinsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði við deild Skipulags og hönnunar í Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist „Flokkun landbúnaðarlands fyrir skipulagsgerð. Beiting fjölþátta ákvarðanagreiningar í landupplýsingakerfi við flokkun landbúnaðarlands í Rangárþingi eystra“. Ljósmynd aðsend

Meistaravörn Guðrúnar Láru Sveinsdóttur í skipulagsfræði

Guðrún Lára Sveinsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði við deild Skipulags og hönnunar í Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist „Flokkun landbúnaðarlands fyrir skipulagsgerð. Beiting fjölþátta ákvarðanagreiningar í landupplýsingakerfi við flokkun landbúnaðarlands í Rangárþingi eystra“ á íslensku en á ensku er titillinn „Suitability classification of agricultural land for planning. Application of GIS based multi criteria decision analysis for suitability classification of agricultural land in Rangárþing eystra”.

Leiðbeinendur eru dr. Bjarki Jóhannesson skipulagsfræðingur og Gréta Hlín Sveinsdóttir sérfræðingur í landupplýsingatækni hjá EFLU. Dr. Bjarki er jafnframt ábyrgðarmaður háskólans með verkefninu. Prófdómari er Tryggvi Már Ingvarsson, deildarstjóri landupplýsingadeildar Þjóðskrár Íslands og formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar.

Vörnin fer fram föstudaginn 8. maí 2020 kl. 13:00 við Landbúnaðarháskóla Íslands, Árleyni 22, á Keldnaholti í Reykjavík. Á Keldnaholti verður viðhöfð 2ja metra regla meðal viðstaddra og því verður leyfilegur fjöldi takmarkaður við 20 manns í 60 manna sal.

Þeir sem hyggja á mætingu á sjálfa vörnina á Keldnaholti þurfa að skrá sig hér(Einungis 11 pláss eru laus í sal og því mikilvægt að skrá sig sem fyrst)

Vörninni verður einnig streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað og öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með vörninni í þannig og hægt að tengjast með þessum hlekk. Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 12:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar.

Vörnin fer fram á íslensku.

Ágrip ritgerðar

Þessi rannsókn felst í því að athuga hvort þekkt aðferð sem notuð hefur verið við staðarvals-greiningar, t.a.m. flokkun landbúnaðarlands erlendis, hentar íslenskum aðstæðum. Aðferðin kallast GIS based Multi Criteria Decision Analysis (MCDA) og á íslensku kallast hún fjölþátta ákvarðanagreining í landupplýsingakerfi. Aðferðin felst í því að skilgreind eru sk. viðmið, sem eru þættir sem geta annars vegar haft áhrif á ræktun svæðis og hins vegar útilokað svæði frá ræktun. Viðmiðunum er skipt upp í áhrifaþætti og takmarkandi þætti. Þeir áhrifaþættir sem skoðaðir verða eru vistgerðir, jarðvegsgerðir, landhalli, hæð yfir sjó og daggráður. Takmarkandi þættir eru þau viðmið sem útiloka ræktun á viðkomandi svæði, m.a. núverandi landnotkun eins og þéttbýli og helstu stofn- og tengivegir sem og mikill landhalli, jöklar, ár og vötn. Áhrifaþættir hafa mismikil áhrif á ræktun lands og hafa mismikið vægi fyrir hentugleika svæða til ræktunar. Til að úthluta áhrifaþáttum vægi verður notuð aðferð sem kallast Analytical Hierarchy Process (AHP) og áhrifaþættir bornir saman með pairwise comparison. Að því loknu verða áhrifaþættir lagðir saman með overlay aðferð sem framkvæmd verður með rasta reiknivél í ArcMAP 10.5 landupplýsingakerfinu sem verður notað til kortagerðar og framsetningar á niðurstöðum rannsóknarinnar.

Flokkun landbúnaðarlands er fremur skammt á veg komin hér á landi, en aðeins 9 sveitarfélög af 72 hafa látið flokka landbúnaðarland innan sinna marka. Eitt af fyrstu sveitarfélögunum sem lét flokka landbúnaðarland var Rangárþing eystra árið 2013, en þá var allt land sveitarfélagsins flokkað í fjóra flokka þar sem flokkur I er besta landið og flokkur IV það lakasta. Sú aðferð sem beitt var við flokkunina fólst einkum í mati á landi út frá loftmynd, hallakortum og hæð yfir sjó auk þess sem land var metið sjónrænt á vettvangi. Þar var einkum horft til áferðar lands, grýtni og grunnvatnsstöðu. Niðurstöður flokkunarinnar gáfu til kynna að innan marka sveitarfélagsins væru rúmlega 62 þúsund ha af góðu ræktanlegu landi (Steinsholt sf., 2013).

Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort unnt sé að nota fjölþátta ákvarðanagreiningu í landupplýsingakerfi til að finna hvar besta ræktunarlandið er í Rangárþingi eystra og að flokka það eftir hentugleika til ræktunar að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem skilgreind verða. Með því að beita fjölþátta ákvarðanagreiningu í landupplýsingakerfi og nýta nýjustu landupplýsingagögn sem tiltæk eru við flokkunina, fæst önnur nálgun á flokkun hér á landi. Aðferðin gefur kost á að taka inn í matið viðmið eins og vistgerðir og jarðvegsgerðir og meta þau eftir hæfni til ræktunar. Niðurstaða flokkunarinnar mun nýtast við skipulagsákvarðanir, en aðferðina verður hægt að yfirfæra yfir á önnur sveitarfélög á auðveldan máta.

Niðurstöður rannsóknarinnar á hvernig landbúnaðarland flokkast í fjóra flokka innan Rangárþings eystra er hægt að skoða í kortasjá sem “Landnotkun í aðalskipulagi”, sjá HÉR. Athuga skal að í kortasjánni er hægt að þysja mun meira niður en sem nemur nákvæmninni í kortlagningunni á landbúnaðarlandi í þessari rannsókn.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image