Guðfinna Lára Hávarðardóttir ver meistararitgerð sína í búvísindum við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands og nefnist hún „Kornrækt á Íslandi – reynsla og þarfir bænda”. Leiðbeinendur Guðfinnu voru Dr. Jón Hallsteinn Hallsson, prófessor í erfðafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og Brita Berglund, M.Sc., verkefnastjóri við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Prófdómari er Dr. Sæmundur Sveinsson, faglegur leiðtogi í erfðafræði hjá Matís.
Athöfnin fer fram í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands í Reykjavík, Árleyni 22, Keldnaholti, Geitaskarði á 2. hæð, og hefst klukkan 13.00 og eru allir velkomnir!
Ágrip verkefnisins
Kornrækt á Íslandi hefur verið stunduð frá landnámi með hléum. Samhliða vaxandi áhuga bænda á kornrækt hefur kornræktartilraunum vaxið fiskur um hrygg og hafa nú verið stundaðar til fjölda ára.
Hingað til hefur aðal áhersla prófana og kynbóta íslenskra vísindamanna verið á fljótþroska byggyrki sem hentað gætu vel hinu stutta íslenska sumri. Þar hefur nú náðst ótvíræður árangur og því eðlilegt á þessum tímapunkti að huga að næstu skrefum í kynbótum og yrkjavali. Hingað til hefur ekki farið fram markviss greining á þörfum hagaðila í byggrækt hérlendis, hvorki ræktenda eða þeirra sem nýta kornið á síðari stigum framleiðslu. Með þessu verkefni er því ætlunin að afla upplýsinga um forsendur kornræktar á Íslandi, þá þætti sem ráða yrkjavali bænda og varpa ljósi á mismunandi þarfir bænda sem kynbótafræðingar geta tekið tillit til í sínum rannsóknum.
Viðtöl voru tekin við tólf kornræktendur um allt land og lagður fyrir þá spurningalisti. Svör bændanna, sem voru fjölbreytt og mismunandi eftir landsvæðum og tilgangi ræktunar, voru kóðuð til að draga fram helstu þætti og áherslur úr niðurstöðunum. Ljóst var af niðurstöðunum að þarfir bænda voru mjög mismunandi eftir aðstæðum og innviðum. Greinilegt var af viðtölunum að sömu yrki henta ekki öllum og þá kom einnig í ljós að jafningjafræðsla virðist ríkur þáttur meðal ræktenda, ekki síður en sú fræðsla sem á sér stað í gegnum greinar eða samtöl við ráðgjafa. Það gefur væntingar um að tengslanet bændanna myndi nýtast vel til að breiða út niðurstöður tilrauna og kölluðu viðmælendur eftir öflugri og dreifðari rannsóknum á korni. Samstarf bænda og kynbótafræðinga hefur víða gefist vel erlendis og er það því leið sem horfa ætti til hérlendis í meira mæli.