Landbúnaðarháskóli Íslands færði nýverið Ungmennafélaginu Íslendingi 6 m2 færanlegt timburhús til eignar og afnota við Sverrisvöll á Hvanneyri. Húsið var áður notað sem rannsóknaraðstaða LbhÍ en hafði verið í geymslu undanfarin ár. Ungmennafélagið stendur fyrir íþróttaæfingum á Sverrisvelli frá sumarbyrjun og fram á haust. Það hefur lengi verið ósk félagsins að bæta geymsluaðstöðu fyrir áhöld við Sverrisvöll. Hingað til hafa áhöld til íþróttaiðkunar verið geymd á efra hæð í gamla bútæknihúsinu. Formaður umf. Íslendings Ulla R. Pedersen segir meðlimi félagsins afar þakkláta fyrir gjöf Landbúnaðarháskóla Íslands sem nýtast mun vel í starfi félagsins. Landbúnaðarháskólinn og ungmennafélagið hafa lengi átt farsælt samstarf um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Hvanneyri sem nemendur í LbhÍ og í grunnskólanum á Hvanneyri auk íbúa á Hvanneyri og nágrenni, hafa nýtt sér.
Félagssvæði Ungmennafélags Íslendings er Hvanneyri, Andakíll og Skorradalur. Á félagssvæðinu eru um 90 börn á aldrinum 1-15 ára, íbúar eru samtals um 500, þar af búa 400 á Hvanneyri.
Formleg afhending áhaldageymslunnar. Rektor LbhÍ og formaður Ungmennafélagsins.