Vísindavaka 2013 verður haldin föstudaginn 27. september í Háskólabíói. Vísindavakan verður sett kl. 17:00 og henni lýkur kl. 22:00. Albína Hulda Pálsdóttir, dýrabeinafornleifafræðingur, og Hrannar Smári Hilmarson, meistaranemi, verða fulltrúar Landbúnaðarháskóla Íslands á Vísindavöku.
Albína mun kynna rannsóknir Auðlindadeildar á uppruna íslensku húsdýrastofnanna með fornDNA og dýrabeinafornleifafræði sem nú er unnið að. Hægt verður að skoða hauskúpur úr nautgripum, kindum og hestum og börnin geta spreytt sig á fornleifauppgreftri.
Hrannar ætlar að einangra erfðaefni (DNA) úr jarðarberjum. Til verksins verða notaðir einföld hráefni sem finna má á hverju heimili. Aðferðin er hættulaus en nokkur saklaus jarðarber munu fórna sér í þágu vísindanna. DNA sameindina er að finna í öllum frumum og er hún hættulaus. Aðferðin sem er beitt í þessu tilfelli gerir erfðaefnið, DNA sameindina, sýnilegt og áþreifanlegt. Einangrun erfðaefnis er mikilvægt ferli og fyrsta skrefið í öllum sameinda-erfðarannsóknum.