Jarðvegssniðið á Geitasandi, rannsókn á nitur og kolefni. Um 10 cm þykk rótar- og trefjamotta hefur myndast ofan á sandinum.

Langtímatilraunir í jarðrækt á Geitasandi - nýjar greinar á skrína.is

Rannsókn á nitur og uppskeru í sandjarðvegi á Geitasandi. Mynd tekin snemma vors. Þar sést hvernig reitir sem fengu áburð eftir fyrri slátt grænka fyrr.
Rannsókn á notkun brennisteins á sandjarðvegi á Geitasandi. Reiturinn hægra megin hefur aldrei fengið fosfór og þá heldur ekki brennistein.
Geitasandur, rannsókn á nitur og kolefni

Þrjár greinar hafa nú birst í vefritinu Skrínu sem fjalla um langtímatilraunir í jarðrækt sem lagðar voru út árið 1958 á Geitasandi á Rangárvöllum og stóðu í 50 ár. Á þessum 50 árum hefur miklum upplýsingum verið safnað og það er grunnurinn sem byggt er á í þessum þremur greinum. Allar greinarnar eru eftir Hólmgeir Björnsson, Þorstein Guðmundsson og Guðna Þorvaldsson hjá LbhÍ.

Fyrsta greinin nefnist Áhrif nituráburðar á uppskeru og nýting hans í langtímatilraun á snauðri sandjörð.
Greinin byggir á niturtilraun (nr 19-58) sem lögð var út á mjög snauðum sandjarðvegi á Geitasandi. Áburðarliðir voru með frá 50 til 200 kg af nitri á hektara. Allnokkur breytileiki var í uppskeru milli ára og tímabila sem væntanlega er að mestu tengdur veðurfari en styrking gróðurtorfunnar hefur trúlega jafnað sveiflurnar nokkuð með árunum. Athyglisverð og jafnframt einstök niðurstaða var að uppskera meira en tvöfaldaðist við aukningu áburðar frá 50N til 100N og fylgdi því ekki lögmálinu um minnkandi vaxtarauka með auknum áburði. Þau árin sem mest spratt var þó vaxtaraukinn minnkandi. Þessi sérkennilega niðurstaða byggir væntanlega á því að tilraunin var á mjög snauðum jarðvegi sem miðlaði afar takmörkuðu til gróðursins. Í greininni er ítarlega fjallað um niturnýtni við mismunandi áburðargjöf og í nokkur ár, þegar vel voraði, var niturnýtni frá 50N til 100N umfram væntingar. Áhrif mismunandi áburðar á gróðurfar voru lítil í fyrstu en í lok tilraunar hafði túnvingull aukið hlutdeild sína á kostnað vallarsveifgrass og língresis ef eingöngu var borið á að vori. Úthagagróðurs var farið að gæta við minnsta áburðarskammt.

Önnur greinin í röðinni heitir Langtímaáhrif nituráburðar á kolefni, nitur og auðleyst næringarefni í snauðri sandjörð.
Unnið var með sömu tilraun og í greininni um áhrif niturs á uppskeru en hér voru áhrif 50 ára áburðargjafar á nokkra jarðvegsþætti teknir fyrir. Á tilraunatímabilinu hafði um 10 cm þykk rótar-og trefjamotta myndast ofan á sandinum. Bæði kolefni og nitur söfnuðust fyrir á tilraunatímabilinu og var uppsöfnunin meiri eftir því sem meira var borið á. Að meðaltali söfnuðust 424 til 597 kg C ha-1 og 24 til 46 kg N ha-1 á ári. Fyrir hvert kíló af ábornu N safnaðist 1,05 kg af C og 0,15 kg af N ha-1 að meðaltali á ári í jarðveginn. Þetta gefur góða vísbendingu um hversu mikið kolefni má binda í snauðum jarðvegi með nitur-áburðargjöf þar sem hvorki P né K skortir.  Sýrustig lækkaði með vaxandi N-áburði úr um 6,0 - 6,5 í um 5,0 - 5,5. Meirihluti áborinna næringarefna hafði verið fjarlægður með uppskeru eða var í efstu 10 cm jarðvegsins. Þessar niðurstöður sýna að samnýting landsins til fóðuröflunar, uppgræðslu og til að binda kolefni getur vel farið saman.

Þriðja greinin nefnist Brennisteinn í langtímatilraunum á Geitasandi.  
Þessi grein hefur mikla sérstöðu vegna þess að hún byggir ekki á sértilraunum með brennistein heldur á því að brennisteinn fylgdi með fosfóráburðinum og brennistein skorti í sandjarðveginum á Geitasandi. Þar voru gerðar þrjár langtímatilraunir með áburð þar sem bornir voru saman vaxandi áburðarskammtar af helstu plöntunæringarefnunum, fosfór, kalí og nitri hverju um sig. Í þessum tilraunum var mikil breidd í fosfóráburði og þar með brennisteini sem fylgdi með. Frá 1973 voru tilraunaliðir með 0, 1, 2, 3, 4 og 6 kg S ha-1 árlega. Tvær aðferðir voru notaðar til að meta hvenær brennisteinsþörf væri fullnægt en það er einnig háð því hversu mikið nitur er borið á. Brennisteinn var örugglega fullnægjandi við 4S og 50N. Í öðrum áburðarliðum, nema 6S og 120N, og 4S og N ≤ 100 kg N ha-1, var brennisteinn örugglega ófullnægjandi. Frávik frá markalínum voru ekki mikið breytileg milli ára og slátta og röðun áburðarmeðferða var stöðug. Meðalupptaka af brennisteini í áburði umfram 1 kg S ha-1 var 48%.

Þessar þrjár greinar byggja á rannsóknum þar sem margir þættir eru þekktir og hefur verið fylgt eftir í áratugi.  Auk úttektar á upptöku næringarefna og uppskeru buðu tilraunirnar upp á að fylgja næringarefnum eftir í jarðvegi, rannsaka bindingu og losun næringarefna og ýmis önnur áhrif áratugalangrar áburðargjafar á gróður og jarðveg.   Það er því mikill fengur fyrir Skrínu að hafa fengið þessar greinar og mikilvægt að upplýsingarnar sem þær geyma séu birtar.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image