Landgræðsluskólinn útskrifar 13 sérfræðinga

Útskrift nema úr árlegu 6-mánaða námi Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna fór fram síðastliðinn fimmtudag, 17. september. Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu, umhverfisstjórnun og sjálfbærri landnýtingu. Þetta er gert með því að þjálfa sérfræðinga sem starfa við landgræðslu- og landnýtingarmál í samstarfslöndum Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu. Sérfræðingarnir sem koma til náms við Landgræðsluskólann hafa allir háskólagráðu sem tengist viðfangsefnum skólans og starfa við stofnanir í heimalandi sínu.

Í ávörpum við útskriftina var lögð áhersla á mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar í  baráttunni gegn landeyðingu og vísað í því samhengi í ný alþjóðamarkmið SÞ um sjálfbæra þróun sem verða samþykkt á allsherjarþingi SÞ í lok þessa mánaðar. Markmiðin miða að því vinna bug á fátækt og ójöfnuði, bæta heilsu og menntun, og koma í veg fyrir eyðingu náttúruauðlinda, hnignun vistkerfa og að draga úr loftslagsbreytingum.  Landgræðsluskólinn vinnur í anda þessara markmiða en eitt þeirra snýr að því að stöðva landeyðingu, græða upp illa farið land og koma í veg fyrir eyðingu lands með því að stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa.  Ef okkur jarðarbúum tekst að ná þessu markmiði mun ekki aðeins landið og lífríkið njóta góðs af. Ávinningurinn af því að bæta landgæði mun einnig auka fæðuöryggi og minnka þar með hungur og fátækt, stuðla að betri heilsu og tryggara aðgengi að hreinu vatni og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.

Nemarnir sem útskrifuðust frá Landgræðsluskólanum í ár koma frá Eþíópíu, Gana, Mongólíu, Úganda, Malaví, Namibíu og Kirgistan; sjö konur og sex karlar.  Skólinn leggur mikla áherslu á að þjálfa bæði karla og konur og að flétta kynjajafnrétti inn í námið enda er það ein forsenda sjálfbærrar þróunar, sem endurspeglast í Alþjóðamarkmiðum SÞ. Landgræðsluskólinn hefur starfað frá árinu 2007 og standa Landbúnaðarháskóli Íslands og Landgræðsla ríkisins að rekstri skólans. Landgræðsluskólinn er fjármagnaður af íslenska ríkinu sem hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Háskóli Íslands
Glæsilegir útskriftarnemar, starfsfólk Landgræðsluskólans, ásamt ráðuneytisstjóra UTN, Sveini Runólfssyni, landgræðslustjóra og Birni Þorsteinssyni, rektor LbhÍ. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image