Landgræðsluskóli GRÓ útskrifar 23 sérfræðinga frá Afríku og Asíu

Útskriftarhópurinn að lokinni athöfn ásamt Martini Eyjólfssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins t.v. og Nínu Björk Jónsdóttur, forstöðumanns GRÓ og Berglindi Orradóttur, starfandi forstöðumanni Landgræðsluskóla GRÓ t.h.

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifar 23 sérfræðinga frá Afríku og Asíu

Landgræðsluskóli GRÓ útskrifaði í vikunni 23 sérfræðinga á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa. Nemendurnir komu frá níu samstarfslöndum skólans í Afríku og Asíu. Nú voru í fyrsta sinn nemendur frá Kenía, en hin löndin voru Gana, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólía, Nígería, Úganda og Úsbekistan.

Landgræðsluskólinn er einn fjögurra skóla GRÓ sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, en hinir starfa á sviði jafnréttis, jarðhita og sjávarútvegs. GRÓ starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Alls hefur nú 221 nemandi útskrifast úr sex mánaða námi við Landgræðsluskóla GRÓ. Samtals hefur 1.741 sérfræðingur útskrifast úr 5-6 mánaða námi í GRÓ skólunum fjórum.

Landgræðsluskóli GRÓ er hýstur í Landbúnaðarháskóla Íslands og fór útskriftarathöfnin fram í húsnæði skólans á Keldnaholti. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins flutti ræðu við útskriftina, ásamt Berglindi Orradóttur, starfandi forstöðumanni Landgræðsluskóla GRÓ. Tveir nemendur fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins, þau Doston Tuvalov frá ríkisháskólanum í Samarkand í Úsbekistan og Mercy Nyambura Ngure frá ráðuneyti vatns-, hreinlætis- og áveitumála í Kenía. Nína Björk Jónsdóttir forstöðumaður GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, afhentu nemendum útskriftarskírteinin og  sleit Ragnheiður jafnframt athöfninni.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir lokaði útskriftarathöfninni og bauð gestum að þiggja léttar veitingar

Útskriftarhópurinn var sá sautjándi frá stofnun skólans árið 2007. Nemendur koma frá samstarfsstofnunum Landgræðsluskólans, sem eru t.d. ráðuneyti, umhverfisstofnanir, héraðsstjórnir, félagasamtök og háskóla- og rannsóknastofnanir. Eins og síðustu ár sóttu námið tveir sérfræðingar sem starfa á vistvöngum sem tilheyra MAB netverki UNESCO í Afríku (Maðurinn og lífhvolfið). Allar eiga samstarfsstofnanirnar það sameiginlegt að vinna að málefnum tengdum sjálfbærri landnýtingu, endurheimt vistkerfa og landvernd.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image