Unnin hefur verið skipulagslýsing og deiliskipulag fyrir endurbætur á Reykjadal, lagfæringar á göngustígum og bæta aðstöðuna við baðlækinn. Á síðasta ári var hafin vinna við gerð deiliskipulagsins. Skipulagslýsing fyrir deiliskipulagið hefur verið send út til umsagnar og umsagnir liggja fyrir. Deiliskipulagið verður lagt fram til kynningar á opnum fundi húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum Ölfusi, mánudaginn 10. júní 2013, kl. 17. Sjá kort.
Mikil umferð er um Reykjadalinn og hefur hún aukist margfalt síðustu árin. Koma þarf gönguleiðinni í einn farveg og loka öðrum leiðum og einnig að verja gróðurinn í dalnum vegna átroðnings göngufólks, hrossa og reiðhjóla. Við baðlækinn er grasbalinn mikið skemmdur og verður að grípa til góðra ráða til að varna meiri skemmdum. Leiðbeininga- og upplýsingaskilti þarf að setja upp við upphaf gönguleiða að dalnum og einnig á gönguleiðinni sjálfri.
Mikilvægt er að þeir sem eru að njóta útivistar í dalnum mæti á fundinn, fræðist um fyrirhugaðar aðgerðir og bendi á góðar lausnir til að bæta það sem þegar er orðið skemmt.
Til fundarins boða Landbúnaðarháskóli Íslands, sem eigandi landsins, Sveitarfélagið Ölfus, Hveragerðisbær og Eldhestar ehf.