Undanfarnar vikur hefur 15 manna hópur meistaranema og kennara frá LBHÍ, HÍ og HA tekið þátt í Erasmus+ starfsnámi í Kólumbíu.
Alejandro Salazar Villegas dósent hjá LBHÍ ásamt Adriana Sanchez hjá del Rosario háskólanum og María Elena Gutiérrez-Lagoueyte hjá EIA háskólanum skipulögðu námsferðina Tundra meets the Páramo. Þá komu Isabel C. Barrio prófessor í LBHÍ og Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor hjá HÍ einnig að skipulagningu og kennslu.
Markmið námskeiðsins var að bera saman áhrif loftslagsbreytinga annars vegar á vistkerfi á hálendi í Kólumbíu og hinsvegar á norðlægara vistkerfi Íslands. Nemendur unnu að lífeðlisfræðilegum mælingum á plöntum, beit, jarðvegsferlum og líffræðilegri fjölbreytni í Chingaza þjóðgarðinum og Nevados þjóðgarðinum, undir leiðsögn vísindamanna frá del Rosario og EIA háskólunum.

Frá Íslandi voru 9 nemendur frá LBHÍ og þrír kennarar, einn nemi frá HÍ og einn kennari og einn nemi frá HA. Frá Del Rosario háskólanum í Bogóta einn kennari og fjórir nemendur á eigin vegum og frá EIA háskólanum í Medellín tveir kennarar og 1 samstarfsaðili á eigin vegum auk tveggja nemenda á eigin vegum. Maylin Gonzalez, frá Humboldt Institute, hélt gestafyrirlestur og The Botanical garden í Bogotá bauð hópnum í fræðsluheimsókn.

-- Fréttin hefur verið uppfærð.