Opinberu háskólarnir á Íslandi skoða nú hvernig bæta má þjónustu við nemendur með erlendan bakgrunn með rafrænni könnun sem verður aðgengileg 4. til 11. febrúar. Könnunin er fyrsti hluti verkefnisins „Inngilding í íslensku háskólasamfélagi“ sem skólarnir vinna saman að.
Stúdentar með erlendan bakgrunn eru beðnir um að svara könnuninni en niðurstöðurnar verða nýttar til að vinna að bættum hag nemenda og vellíðan þeirra í háskólanámi.
Könnunin, sem er á íslensku og ensku, inniheldur einfaldar krossaspurningar. Það tekur aðeins um 7-10 mínútur að svara henni. Þrír þátttakendur sem klára könnunina verða dregnir út og vinna gjafakort að upphæð 20.000 kr. Í könnuninni eru nokkrar bakgrunnsspurningar, sem snúa meðal annars að uppruna og aldri þátttakenda. Er það gert til þess að hægt sé að rýna í upplifun fólks af námi og félagslífi í háskóla út frá mismunandi forsendum.
Könnunin er nafnlaus og hún er valkvæð. Ekki er hægt að rekja nein svör til þátttakenda. Svörum úr könnunni verður ekki miðlað áfram en niðurstöðurnar verða kynntar innan háskólanna. Að öðru leyti verður farið með öll gögn eins og persónuverndarstefnur háskólanna kveða á um og lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Hlekkur í könnunina sem verður opin frá 4. til 11. febrúar
Nánar um verkefnið „Inngilding í íslensku samfélagi“