Kári Freyr Lefever ver meistararitgerð sína í skógfræði: „Degli á Íslandi - Möguleikar og áskoranir við ræktun deglis í skógrækt á Íslandi“ e. „Douglas-fir in Iceland – Opportunities and challenges of using Douglas-fir in Icelandic forestry“ við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinendur Kára Freys eru dr. Brynjar Skúlason, trjákynbótafræðingur, og Lárus Heiðarsson, skógfræðingur MSc, báðir sérfræðingar hjá Skógræktinni, og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er Jón Geir Pétursson, prófessor við Háskóla Íslands.
Meistaravörnin fer fram miðvikudaginn 20. september 2023 kl. 14:00.
Vörninni verður streymt á Teams, HLEKKUR HÉR. Mikilvægt er að vera kominn tímanlega inn á Teams og hafa slökkt á hljóðnema og myndavél.
Ágrip
Degli (Pseudotsuga menziesii) er ein mikilvægasta trjátegundin í N-amerískri og evrópskri skógrækt vegna mikils vaxtarþróttar og verðmæts viðar. Ræktun deglis hefur verið mun minni og með verri árangri í Skandinavíu en í Mið-Evrópu. Á Íslandi hefur degli sáralítið verið ræktað en fáeinar degligróðursetningar finnast hér á landi.
Í rannsókninni var leitast við að fá skýrari mynd af vænleika degliræktar í skógrækt á Íslandi. Úttektir voru gerðar á tveimur fyrirliggjandi kvæmatilraunum og mat lagt á lifun, vöxt og þrif trjánna, frostþol 17 deglikvæma undir lok september var prófað við stýrðar aðstæður og vaxtarmælingar á eldri degliskógum og -trjám voru gerðar.
Fjallakvæmi frá Bresku Kólumbíu sýndu um 90% lifun í 20 ára kvæmatilraun og voru mun álitlegri en kvæmi úr lítilli hæð sem þrifust illa. Frægarðaefni frá Bresku Kólumbíu sýndu góðan árangur í lifun og vexti í miklu skógarskjóli en voru ekki betri en norðlægt kvæmi frá Bresku Kólumbíu. Háfjallakvæmi frá Nýju-Mexíkó vegnaði talsvert verr.
Mjög gott skógarskjól var forsenda góðs árangurs í tilraununum. Á skjólminni stöðum var árangur verri og aldauði var á fjórum tilraunastöðum í opnu landi. Undir skógarskermi eða í smáum skógarrjóðrum má vænta prýðilegrar lifunar og ágætum vexti en gott vaxtarlag er ótryggt. Ásættanleg lifun deglis í opnu landi í bröttum hlíðum í inndölum er ekki útilokuð.
Frostþol 17 deglikvæma undir lok september var mikið en kvæmamunur var lítill. Rannsaka þarf frostþol nánar til að öðlast betri mynd af vetrarherðingu deglikvæma á Íslandi. Vaxtarþróttur deglis á Íslandi er yfirleitt ágætur en elstu deglitré landsins eru á meðal stærstu trjáa Íslands og einstaka tré hafa sýnt einmuna vaxtarhraða.