Forsetahjónin Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson ásamt handhöfum fálkaorðunnar á Bessastöðum. Mynd fengin af mbl.is
Á þjóðhátíðardaginn var Jónatan Hermannsson, jarðræktarfræðingur og fyrrum tilraunastjóri við LbhÍ, sæmdur riddarakrossi fyrir framlag til kornræktar og íslensks landbúnaðar.
Jónatan hóf störf hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, nú Landbúnaðarháskóla Íslands, 1979 og hefur unnið þar æ síðan. Aðalstarfsvettvangur Jónatans hjá Landbúnaðarháskólanum hefur alla tíð verið á Tilraunastöðinni á Korpu sem liggur á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Fljótlega eftir að hann hóf störf varð hann virkur þátttakandi í endurnýjuðu átaki til þess að kynbæta bygg fyrir íslenskar aðstæður en á þessum tíma var nær engin kornrækt á Íslandi. Til að gera langa sögu stutta þá hefur Jónatan verið aðaldrifkrafturinn og hugmyndasmiðurinn í byggkynbótum á Íslandi síðustu 30 árin.
Jónatan er fæddur þann 27. nóvember 1946 á Galtalæk í Biskupstungum. Hann varð búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum 1965 og búfræðikandídat frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1973. Jónatan hefur ekki hlotið neina formlega menntun í kynbótafræðum. Honum hefur samt tekist að fá með kynbótum fljótþroska og strásterk yrki sem gefa sambærilega eða jafnvel meiri uppskeru en bændur í nágrannalöndunum fá. Þetta gerir árangur kynbótanna enn merkilegri og er ekki fjarri lagi að segja að með tilliti til aðstæðna sé hann sambærilegur því sem best hefur tekist í kynbótum nytjaplantna í heiminum á ofanverðri 20. öld.
Vert er að benda á viðtal við Jónatan sem birtist í Tímariti Bændablaðsins 2017, bls 30 – 39.