Jóna Björk Jónsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði

Jóna Björk Jónsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði

Jóna Björk Jónsdóttir ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði sem nefnist „Loftslags- og umhverfisvænt skipulag í dreifbýli. Flokkun lands með hliðsjón af bindingu kolefnis, losun gróðurhúsalofttegunda, líffræðilegri fjölbreytni og landslagi“ við deild Skipulags & Hönnunar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Leiðbeinendur Jónu Bjarkar eru Ása L. Aradóttir, prófessor við LbhÍ; Salvör Jónsdóttir, skipulagsfræðingur MS; Jón Guðmundsson, lektor við LbhÍ. Prófdómari er Matthildur Kr. Elmarsdóttir, skipulagsfræðingur MS.

Meistaravörnin fer fram 23. maí 2023 kl 15:00 á Keldnaholti í Reykjavík. Vörninni verður einnig streymt á Teams og er hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökkt á hljóðnema.

Ágrip

Markmið verkefnisins var að kanna hvaða gögn eru aðgengileg um ástand lands með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda, bindingar kolefnis, líffræðilegrar fjölbreytni og landslags. Einnig að kanna hvernig hægt er að nýta þau gögn sem eru fyrirliggjandi þegar teknar eru ákvarðanir í skipulagsmálum með hliðsjón af kolefnisbindingu, losun gróðurhúsalofttegunda, líffræðilegri fjölbreytni og landslagi.

Rannsóknin náði yfir landsvæði sem áður tilheyrði Kirkjubæjarhreppi utan þess lands sem nú telst til þjóðlendu. Leitað var upplýsinga í stafrænum gagnagrunnum, kortagögnum og rituðum heimildum, auk þess sem viðtöl voru tekin við staðkunnugt fólk og starfsmenn stofnana sem málið varðar. Stafræn gögn voru sett í ArcGIS forrit þar sem þau voru borin saman innbyrðis og við ritaðar og munnlegar heimildir. Frumniðurstöður vinnunnar voru bornar undir staðkunnugt fólk til þess að gera kortlagninguna enn nákvæmari.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að mikið hefur verið gefið út af gögnum síðustu ár sem nýtast við þessa kortlagningu og sífellt er verið að bæta gæði gagnagrunna og gefa út ný gögn. Með því að yfirfara gagnagrunna með staðkunnugum einstaklingum var hægt að kortleggja land með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis. Einnig var hægt að kortleggja land gróflega með hliðsjón af líffræðilegri fjölbreytni en erfitt reyndist að kortleggja svæðið út frá landslagi.

Þegar kortlagning lá fyrir var gerð tillaga að flokkun lands sem nýst getur við skipulagsgerð með tilliti til kolefnisbúskapar, líffræðilegrar fjölbreytni og landslags og lagðar fram tillögur að stefnumörkun um landnotkun innan hvers flokks. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image