Hlýnun í framtíðinni mun hugsanlega valda hröðu og miklu tapi á kolefnisforða jarðvegs á norðurslóðum en hinsvegar mundi aukin ákoma köfnunarefnis á sömu svæðum auka bindingu kolefnis í jarðvegi. Þó er ólíklegt að áhrif köfnunarefnis-ákomunnar nái að vega á móti hlýnuninni. Þetta er ein meginályktunin sem draga má af rannsóknum Niki I. W. Leblans sem ver doktorsritgerð sína við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands 14. nóvember nk.
Niki hefur unnið í fjögur ár við rannsóknir á áhrifum jarðhita í graslendum við Hveragerði. Hún bar saman svörun vistkerfa á milli misgamalla jarðhitasvæða og gat þannig greint á milli skammtíma- og langtímaáhrifa jarðvegshlýnunar á virkni vistkerfa og jarðvegsferla. Þetta nota hún og leiðbeinandi hennar, Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor við Lbhí, til þess að spá fyrir um áhrif hlýnandi loftslags á vistkerfi. Niki og Bjarni hafa einnig nýtt sér hina ungu eyju Surtsey og aðrar eyjar Vestmannaeyja í rannsóknum sínum, en þær bjóða upp á einstakt tækifæri til að kanna svörun graslenda við mismunandi magni af fuglaskít. Áhrif köfnunarefnis sem fuglaskítur er ríkur af, á kolefnisbindingu vistkerfa getur vegið á móti áhrifum hlýnunar og niðurstaða Niki og Bjarna er einmitt sú.
Hnattrænar umhverfisbreytingar eru meðal stærstu áskorana sem núlifandi kynslóðir standa frammi fyrir. Hitastig jarðar stígur jafnt og þétt vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum (GHG), en mismunandi loftslagslíkön spá mjög ólíkt fyrir um hraða hlýnunarinnar í framtíðinni vegna mikillar óvissu um ýmsa hitastigsháða ferla sem geta bæði temprað eða magnað hlýnunina.
Niki segir að hún hafi, síðan hún man eftir sér, verið hugfanginn af norðlægum slóðum. Þegar hún var nemandi við Háskólann í Antwerpen í Belgíu segist hún hafa reynt að skrá sig í öll þau námskeið sem hugsanalega gætu fært hana nær þessu landsvæði og fór t.d. til Svalbarða til styttri námsdvalar á meðan á grunnnámi hennar stóð.
„Ég vann mastersverkefnið mitt í Norður-Svíþjóð og kom svo fyrst til Íslands sem sjálfboðaliði fyrir Umhverfisstofnun. Á meðan á þessum verkefnum stóð lærði ég mikið um náttúrufar norðurslóða og ég áttaði mig á hversu viðkvæm vistkerfin hér eru og sérstaklega þegar þau eru skoðuð í samhengi við hlýnun jarðar. Það stóð því alls ekki á svari hjá mér þegar Ivan Jansses, prófessor við Háskólann í Antwerpen, spurði hvort ég hefði áhuga á að vinna að doktorsverkefni um áhrif hlýnunar jarðar á Íslandi í samstarfi við Landbúnaðarháskólann.“ Segir Niki, en verkefnið hennar er unnið í samstarfi Háskólans í Antwerpen og Landbúnaðarháskóla Íslands. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði, er annar leiðbeinandi Niki, en Bjarni hefur undanfarin ár leitt stórt evrópskt rannsóknarverkefni um áhrif jarðvegshlýnunar á skóga og graslendi á Suðurlandi sem nefnist FORHOT (www.forhot.is). Hann hefur einnig tekið þátt í rannsóknum á náttúrufari Surtseyjar og annarra úteyja Vestmannaeyja og fleiri rannsóknarverkefnum sem tengjast bæði áhrifum landnýtingar og loftslagsbreytinga á bæði ræktuð og náttúruleg vistkerfi.
Síðustu fjögur ár hefur Niki haft aðsetur í Garðyrkjuskólanum og stundað hluta rannsókna sinna innan FORHOT verkefnisins á landi Reykja í Ölfusi ofan Hveragerðis og í Grænadal sem er í eigu Landbúnaðarháskóla Íslands. Á þessu svæði eru einnig margir „heitir reitir“, þar sem jarðvegur hitnar mismikið neðan frá vegna heits bergs undir moldinni. Það eru þessar aðstæður sem FORHOT verkefnið nýtir til að rannsaka áhrif hlýnunar á náttúrufar slíkra svæða. Niðurstöðurnar geta hjálpað okkur við að skilja hvernig hlýnun jarðar mun hafa áhrif á sambærileg norðlæg vistkerfi.
Að sögn Niki þá hefur hún aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að koma til Íslands og vinna rannsóknir sínar í samstarfi við Landbúnaðarháskólann. „Hér hef ég kynnst mjög skemmtilegu háskóla- og rannsóknaumhverfi, þar sem ótrúlega vítt fræðastarf fer fram. Samstarfsmenn við Landbúnaðarháskólann tóku einnig sérstaklega vel á móti mér og hafa veitt mér mikinn stuðning þessi ár sem ég var búsett hér.“
„Ein megin niðurstaða rannsókna minna er að umtalsverð hlýnun í framtíðinni mun hugsanlega valda hröðu og miklu tapi á kolefnisforða graslendisjarðvegi, en graslendi þekja um 10% jarðar. Þetta myndi þá auka við það magn koldíoxíðs (CO2) sem við sleppum út í andrúmsloftið með bruna á jarðefnaeldsneyti og þannig auka enn á hraða gróðurhúsaáhrifanna. Hinsvegar fann ég einnig í rannsóknum mínum í Vestamannaeyjum og Surtsey að aukin ákoma á köfnunarefni (N), sem spáð er að aukist umtalsvert á norðurslóðum á komandi áratugum, mun að hluta vega á móti tapi á kolefnisforða graslendanna, þó svo að það nái að vega á móti hlýnuninni.“
Aðspurð um hlutverk fuglaskíts í rannsókn hennar segist standa í þakkaskuld við sjófugla. „Fuglaskítur, eða náttúruleg áburðargjöf með sjófuglum, var mjög mikilvæg í rannsóknum mínum og ég á sjófuglunum við Vestmannaeyjar mikið að þakka. Sjófuglar leita fæðu í sjónum en skila henni svo á landi. Þar sem fuglaskítur inniheldur mikið magn af köfnunarefni var hægt að skoða hvernig það hefur áhrif á kolefnisbindingu í jarðvegi norðlægra graslenda með því að bera saman mismunandi eyjar eða svæði með og án mikilla áhrifa frá sjófuglum. Mikill skortur er á langtíma tilraunum í heiminum þar sem borið hefur verið á sambærileg svæði yfir lengra tímabil. Þar sem ég bar saman svæði með og án náttúrulegrar áburðargjafar frá sjófuglum gat ég skoðað hver áhrifin voru á jarðveg í 1600 ár aftur í tíman; eða 500 árum lengur en menn hafa verið búsettir á Íslandi.“
Niki naut þess mjög að búa og starfa í Hveragerði, en þar leigði hún íbúð á meðan á rannsóknunum stóð. „Á Garðyrkjuskólanum á Reykjum upplifði ég einnig mjög skemmtilegt og hvetjandi vinnuumhverfi og góðan starfsanda. Það skemmdi svo ekki fyrir að hafa fjallahringinn á Suðurlandi fyrir augunum alla daga og geta gengið út af skrifstofunni til að tína ber, sveppi, fjallagrös og kryddjurtir í villtri náttúru Íslands eða fá að smakka ferkar afurðirnar í rannsókna-gróðurhúsum Garðyrkjuskólans, en þetta eru lífsgæði sem sá sem elst upp í hinni þéttbýlu Belgíu kann virkilega að meta. Það að búa hjá stærstu banana-plantekru norðan Alpafjalla, sem er á Garðyrkjuskólanum, hafði einnig sína kosti."
Vörnin fer fram mánudaginn 14 nóvember kl. 13:00 í húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík.