Hið einstaka bananahús á Reykjum skoðað fyrir fundinn.

Hugarflugsfundur að Reykjum

Aðstæður skoðaðar í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar en þörf er á að bæta aðstöðu til námsins.

Þann 18. október sl. var efnt til hugarflugsfundar að starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi með starfsmönnum og hagaðilum skólans. Um 40 manns mættu til að ræða tillögur og framtíðarsýn um uppbyggingu húsnæðis, tækjakosts og annarrar aðstöðu á Reykjum í því skyni að styrkja rannsóknir, nýsköpun og nám/kennslu á bæði háskóla- og starfsmenntanámsstigi.

,,Á Reykjum í Ölfusi eru gríðarlega mikilvægir innviðir til staðar, löng hefð fyrir starfsmenntanámi og rannsóknum og spennandi saga garðyrkjumenntunar og uppbyggingar greinarinnar hérlendis. Staðurinn hefur mikið aðdráttarafl og tækifæri til uppbyggingar eru fjölmörg eins og fram kom í fjörugum umræðum á fundinum” segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans.

Fundarmenn voru sammála um að auka þyrfti nýtingu þeirra innviða sem væru á staðnum. Á fundinum komu fram fjölmargar hugmyndir, svo sem aukin áhersla á rannsókna- og nýsköpunarverkefni með sókn í Evrópusjóði, efling norræns samstarfs sem og aukið samstarf við hagaðila hérlendis. Í því sambandi voru nefndar hugmyndir eins og “Grænt hús” til að skapa aðstöðu fyrir aðila sem starfa í þeim greinum sem kenndar eru við skólann og skylda aðila, skapa staðnum sess sem “Sjálfbærnisamfélag Íslands” og nýta tengingu við nærsamfélagið og nálægðina við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og höfuðborgarsvæðið. Þá kom fram tillaga um að stofna “Rannsóknasetur jarðvarmans” og stefna að byggingu nýrra rannsóknagróðurhúsa, efla loftslagsrannsóknir, lífræna ræktun, koma upp stærri vermireitum utanhúss og efla ræktunarrannsóknir í samstarfi við jarðræktarhóp skólans.

Efling náms mikilvæg

Einnig komu fram tillögur um eflingu starfsmenntanáms skólans sem og endurmenntunar og að boðið yrði upp á leiðsögn um svæðið, heimsóknir í bananahús skólans og kynningar á þeim rannsóknaverkefnum sem væru í gangi á hverjum tíma. Slíkt gæti aukið tekjur skólans til að standa undir viðhaldsþörf bygginga og kosta framtíðaruppbyggingu innviða. Einnig voru ræddir möguleikar á því að koma á samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands með sama sniði og samstarf sem verið hefur við Menntaskóla Borgarfjarðar, sem gengur út á það að nemendur taki tvö ár í menntaskólanum og síðan tvö ár við Landbúnaðarháskóla Íslands og útskrifist bæði sem stúdentar og af starfmenntabraut.

Brýn þörf er á auknu fjármagni til uppbyggingar á Reykjum og til viðhalds þeirra bygginga sem eru á staðnum. Stuðningur hefur fengist frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og aukið fé til að lagfæra skálann að Reykjum og Minjastofnun er að styrkja endurbætur á Fífilbrekku sem var sumarhús Jónasar frá Hriflu og nýst gæti sem fræðimannabústaður í framtíðinni.

,,Á fundinum kom fram að þegar væri farið að huga að minjavernd bananahússins og unnið væri að því að sækja um styrki til lagfæringar á því og til að yfirfara önnur eldri gróðurhús. Þá væri einnig unnið að því að finna fjármuni til að hefja endurbætur á skólastjórahúsinu. Það er því bjart framundan á Reykjum og fjölmörg verkefni framundan fyrir starfsmenn, hagaðila og velunnara skólans”, segir Ragnheiður að lokum.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image