Skólanum barst höfðingleg gjöf frá Magnúsi Óskarssyni en hann arfleiddi skólann af 200 milljónum. Magnús lést 29. desember síðastliðinn en hann hafði starfað við skólann (þá Bændaskólann) allan sinn starfsferil. Magnús varð búfræðikandidat frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1953 og réðist svo til skólans sem kennari og tilraunastjóri eftir framhaldsnám og störf í Danmörku. Hlutverk Magnúsar var auk kennslu, að koma upp grasafræðigarði og stunda tilraunir og er hann einn af frumherjum í íslenskri tilrauna- og ræktunarsögu á sviði landbúnaðar. Eftir að Magnús lét af störfum á Hvanneyri kenndi hann við Garðyrkjuskóla ríkisins og var ráðunautur hjá Áburðarverksmiðju ríkisins.
Magnús hafði búið svo um að fjármunina skyldi nota til að byggja upp aðstöðu til rannsókna og kennslu á sviði jarðræktarfræða, umhverfisfræða og landnýtingar. Arfinn má einnig nýta til að efla íþróttaaðstöðu við skólann eða verknámsaðstöðu á Hvanneyri. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, segir að gjöfin sé mjög rausnarleg, komi að góðum notum fyrir skólann og að allir starfsmenn skólans séu mjög þakklátir fyrir hana.
Mynd úr myndasafni Magnúsars Óskarssonar tekin sumarið 1955 fylgir, fengin frá Bjarna Guðmundssyni fyrrum kennara og samstarfsmanni Magnúsar. Hann ritar svo um myndina: „...MÓ við ræktunarhólfin SA-undir kirkjugarðinum á Hvanneyri... líklega er það hafri sem er að berjast þarna upp úr mismundandi jarðvegi ræktunarhólfanna .... Tilraunastjórinn væddur hamri og öðru amboði hugar bindisvæddur að verkefni sínu .....“
Magnús vann eljumikið brautryðjendastarf á sínum tíma við skólann og lýsir það honum best að leggja nú í hendurnar á skólanum möguleika til að halda hans minningu á lofti með áframhaldandi vinnu á kjörsviði sínu.
Að lokum sendum við okkar gleðilegustu sumarkveðjur til allra landsmanna og þökkum með auðmýkt Magnúsi Óskarssyni fyrir allt sitt starf og nú einnig um ókomna tíð.