Mánudaginn 3. febrúar kl. 14 ver Helga Rún Guðmundsdóttir meistararitgerð sína við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Vörnin fer fram í húsakynnum skólans á Keldnaholti í Reykjavík.
Verkefnið heitir Katanes, endurheimt votlendi og skipulag. Leiðbeinandi er Dr. Sigríður Kristjánsdóttir og meðleiðbeinandi Hlynur Óskarsson. Prófdómari er Gestur Ólafsson.
Katanes er 1.3 km2 landsvæði í Hvalfirði sem stendur í næsta nágrenni við stóriðjuna á Grundartanga. Svæðið býr yfir fallegri náttúru með miklu fuglalífi. Á síðasta ári var endurheimt votlendi á svæðinu sem nefnist Katanestjörn. Katanestjörn er í þjóðminjavernd vegna þjóðsögunnar af Katanesdýrinu en svæðið allt býr yfir mikilli sögu. Hluti svæðisins er innan þynningarlínu stóriðjunnar og setur það ákveðnar takmarkanir á notkun svæðisins.
Markmið verkefnisins er að finna út hvernig hægt væri að auka gæði og notkun svæðisins með tilliti til almennings, náttúrufars og fuglalífs.
Verkefnið skiptist í fimm meginkafla. Byrjað er að fara yfir vettvangsrannsókn sem gerð var á svæðinu þar sem fjallað er um vettvangsferðir sem farnar voru á árinu og ýmsar tölulegar upplýsingar um athugunarsvæðið. Því næst er fjallað um greiningar sem gerðar voru á svæðinu sem skiptast í þrjá flokka. Náttúrufarslegar greiningar sem fjalla um náttúrufar, manngert umhverfi þar sem skoðaðir eru þeir þættir sem maðurinn hefur haft áhrif á og í lokin er núverandi staða svæðisins skoðuð. Þá er gerð samantekt á greiningum, fjallað um hugmyndafræði og að lokum er tillaga að nýju skipulagi lögð fram.
Niðurstöður vettvangsrannsóknar sem gerð var á svæðinu leiða í ljós að lítil sem engin umferð fólks er um svæðið. Aðrar niðurstöður leiddu í ljós takmarkaða notkunarmöguleika vegna þynningarlínu sem liggur um svæðið. Landið er erfitt yfirferðar og gönguleiðir og stígar eru mjög takmarkaðir um svæðið og við önnur aðliggjandi svæði. Náttúrufar, saga, þjóðsaga, votlendi og fuglalíf eru þeir þættir sem styrkja gæði svæðisins.
Í skipulagstillögunni er gerð tillaga að bættum gönguleiðum og aðkomu, sérstaklega er fjallað um votlendi og gróður með tilliti til fuglalífs. Að lokum er gerð tillaga um hvernig megi draga fram styrkleika svæðisins.