Starfsfólk LBHÍ heimsótti Wageningen háskóla í Hollandi í byrjun Október. Byrjað var á ferð til Bleiswijk, þar sem er garðyrkjusvið Wageningen Háskóla. Þar eru 7500 m2 af tilraunagróðurhúsum og eru stundaðar rannsóknir á sviði ylræktar og laukblóma. Þar tók á móti hópnum hin spænska Nieves Garcia sem sagði frá starfsseminni, tengingu við atvinnulífið og ekki síst verkefninu um, „Gróðurhúsið 2030“, sem afar áhugavert var að skoða. Gróðurhúsið notar ekki gas til upphitunar. Það er svokallað alrafmagns gróðurhús að með fullri LED lýsingu. Varmadæla er notuð til að stýra raka. Þannig er falinn hiti endurheimtur og gróðurhúsið helst lokað á veturna og vorin. Gróðurhúsið losar ekki frárennslis- og þéttivatn í fráveituna og er all vatn endurnýtt þannig að engin næringarefni tapast og það nýtist sem best ásamt því að engar leifar úr ræktunarvörum lenda í fráveitu. Óson er notað til að sótthreinsa vatnið þannig að hægt er að endurnýta það í ræktun. Að lokum er ræktunarvernd að fullu samþætt, með því að nota náttúruleg varnarefni eins mikið og mögulegt er.
Frá Bleiswijk var haldið til Wageningen þar sem aðal háskólasvæðið er og er hann einn fremsti háskóli heims á sviði lífvísinda og landbúnaðar. Wageningen svæðið er oft kallað “Matardalurinn” í Hollandi. Þar tók á móti hópnum Tineke Bremer samskiptastjóri frá rektorsskrifstofu, en hún skipulagði dagskránna á svæðinu. Framkvæmdarstjóri alþjóðasamskipta, Wassim Beaineh byrjaði á að kynna hvaða áhrif stóraukið alþjóðastarf hefur haft á vöxt skólans og hefur á mörgum sviðum skipt sköpum. Þaðan var haldið í skoðunarferð í NPEC - Nýjasta gróðurhús háskólabúsins sem búið er hátæknitæknibúnaði. Þar eru ýmsar rannsóknir t.d. á lýsingu, sjúkdómavörnum, áburðartilraunir og plöntukynbætur. EInnig er þar líkt eftir öllu ferlinu frá því að varan er uppskorin og þangað til hún kemur í verslanir og prófanir meðal annars á aðstæðum við geymslu og flutninga.
Hópurinn hélt síðan í aðal kennslubygginguna á svæðinu og tók við Dr Ryan Teuling lektor og sérfræðingur á sviði vatnafræði og stýringu vatns, Dr Roel Dijksma dósent við umhverfisfræðideild og Dr Edward Huijben prófessor og formaður WUR. Kynntu þeir árlegar námsferðir til Íslands og síðan fóru fram umræður um samstarfsmöguleika við LBHÍ sem gæti verið afar áhugavert. Sem dæmi má nefna að sumarið 2022 dvöldu rúmlega sjötíu nemendur í níu daga við vatnarannsóknir á Íslandi. Edward Huijben sem áður starfaði við Háskólann á Akureyri kemur líka að kennslu við landslagsarkitektadeildina og benti á sýningu á lokaverkefnum nemenda sem hékk uppi á heimsóknardaginn.
Rúsínan í pylsuendanum var svo heimsókn á einstaka sýningu, „Jarðvegur heims“. Þar er að finna stærsta jarðvegssafn veraldar og eru þar sýnishorn af jarðvegssniðum frá öllum heimshornum og meðal annars frá Íslandi. Forstöðumaðurinn, Stephan Mantel og vinur okkar jarðvegssérfræðinga sá um leiðsögn. Afar áhugavert var að sjá tenginguna við okkar fólk, með bæði voru myndrænt í kynningarefni safnsins og í tali Stephans. Sannkallaður sjónrænn ævintýraheimur. Alls staðar mætti hópnum velvild og frábærar móttökur.
Langur en afar lærdómsríkur dagur á enda. Morguninn eftir var farið í fræðslusiglingu um síki Amsterdam með arkitekta- og skipulagssögu Amsterdam og þá var bara að láta sig hlakka til lokakvöldverðar sem haldinn var á IJ Kantine, í gömlu verksmiðjuhúsnæði við hafnarsvæði borgarinnar.