Í byrjun september kom formaður gæðaráðs íslenskra háskóla Dr Andrée Sursock ásamt Sígurði Óla Sigurðssyni frá Rannís í heimsókn á Hvanneyri. Heimsóknin var ætluð til þess að veita formanni ráðsins innsýn í starfið, umhverfið og framtíðaráform háskólans. Hvanneyri skartaði sínu fegursta þennan dag og gestirnir voru afar hrifnir af staðnum.
Umræður snérust meðal annars um nýja stefnu skólans og hugmyndir um breytt skipulag. Dr. Surscock hafði sérstaklega á orði að henni hugnuðust vel hugmyndir um aukna samþættingu á fagþekkingu milli starfsmenntanáms og háskólanáms og þekkti nokkur dæmi þess að sú leið hafi verið farin með góðum árangri og styrkingu náms á öllum námsstigum.
Hvað er gæðaráð?
Gæðaráðið hefur sett fram rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar á Íslandi (e. Icelandic Quality Enhancement Framework) og birt í sérstakri handbók. Kveður rammaáætlun á um að á fimm ára tímabili skuli fara fram kerfisbundið mat á gæðum háskólastarfs á Íslandi. Felst matið annars vegar í innra mati (sjálfsmati) háskólanna á faglegri starfsemi sinni og hins vegar í ytra mati Gæðaráðs á háskólunum.
Samhliða Gæðaráðinu starfar ráðgjafarnefnd sem er skipuð fulltrúum háskólanna, stúdenta, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytis og er tengiliður á milli ráðsins og skólanna. Auk þess að vera Gæðaráði til ráðgjafar um framkvæmd rammaáætlunarinnar er ráðgjafarnefndin samráðsvettvangur háskólanna og gengst fyrir málþingum og fræðslu um gæðamál. Mikið starf hefur verið unnið innan háskólanna við framkvæmd Rammaáætlunarinar.