Hæpið er að þjóðin verði sjálfri sér nóg um landbúnaðarvörur

Íslendingar geta ræktað allt að helmingi þess kjarnfóðurs sem hér er notað og jafnvel flutt út mjólkurduft. Hæpið er þó að þjóðin verði sjálfri sér nóg um landbúnaðarvörur, segir Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
 

Í fréttinni segir ennfremur að svo virðist sem stjórnvöld hafði ekki markað stefnu um breytingar í matvælaframleiðslu samfara hlýrra loftslagi.

Þá segir í fréttinni: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í gærkvöld að loftslagsbreytingar myndu leiða til hærra matvælaverðs og í því felist tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland.

Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, segir mögulegt að auka kornrækt verulega. Bygguppskera aukist um tonn á hektara - um þriðjungs aukning, fyrir hverja gráðu sem hlýni.

Nú eru um sextán prósent af kjarnfóðri sem notað er á Íslandi, ræktað hér. En það gæti aukist, sérstaklega ef hlýnar. „Þá getum við framleitt kannski framleitt allt að 50 prósent af því kjarnfóðri sem notað er í landinu. Og það eru náttúrulega miklir möguleikar sem felast í því,“ sagði Áslaug í viðtali við RÚV í dag.

Hæpið sé hins vegar að Ísland fari að flytja út landbúnaðarafurðir í stórum stíl. Það sé þó mögulegt, til dæmis að flytja út mjólkurduft til Kína, eins og Norðurlönd gera mörg. En það fari þó eftir samkeppnisstöðu Íslands.

Þrátt fyrir þetta verði Ísland ekki sjálfbært um matvæli, jafnvel þótt loftslag jarðarinnar verði hlýrra. „Ég held að við verðum alltaf óhjákvæmilega að flytja eitthvað inn af matvælum, eins og við erum að gera núna. Ég held að það sé ekki raunhæft að ætla það að við getum orðið 100 prósent sjálfbær í matvælum.“

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image