Gunnhildur Gísladóttir og Hrannar Smári Hilmarsson hafa birt niðurstöður rannsóknar um hækkun sýrustigs í jarðvegi og birt í ritröð LbhÍ nr. 176.
Markmið þessarar rannsóknar var kanna virkni þeirra efna sem notuð hafa verið til fjölda ára á Íslandi ásamt því að athuga hvort mögulegt sé að nýta innlend bergefni á borð við svartan sand til hækkunar sýrustigs ræktunarjarðvegs og áhrif þess á uppskeru. Niðurstöður sýndu að mögulegt er að nýta innlend basísk bergefni til hækkunar sýrustigs í jarðvegi en skeljasandur og dólómít kalk gefa meiri svörun til skemmri tíma litið.
Til þess að hækka sýrustig ræktunarjarðvegs hefur hingað til verið notast við kalkefni á borð við skeljasand og dólómít kalk. Erlendar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að möguleiki sé að nota basísk bergefni sambærilegum svörtum fjörusandi. Slíkt gæti komið að hagnaði fyrir íslenska bændur.
Tilraun var lögð út á Hvanneyri þar sem bornar voru saman 11 meðferðir í þremur mismunandi skömmtum á sýrustig jarðvegs og uppskeru gróffóðurs. Meðferðirnar voru áburðarkalk I&II, dólómít kalk I&II, skeljasandur, svartur námusandur, grár fjörusandur, blanda af svörtum sandi og áburðarkalki, blanda af svörtum sandi og dólómít kalki, blanda af skeljasandi og áburðarkalki og viðmið sem fékk enga meðferð. Niðurstöðurnar bentu til þess að meðferðirnar höfðu mismunandi áhrif á uppskeru, en skammtastærðir höfðu ekki áhrif.
Jarðvegur er forðabúr næringarefna og sé hann of súr dregur það úr aðgengi plantna að nauðsynlegum næringarefnum. Íslenskur jarðvegur er breytilegur á milli landshluta, þar sem mikið er um rigningar og lítið um áfok er algengt að jarðvegur sé súr þar sem næringarefni skolast úr jarðveginum og lítið berst í hann af basískri eldfjallagjósku. Með því að ná sýrustigi sem er hentugt nytjajurtum má bæta uppskeru og nýtingu áburðarefna.
Vonir standa til að hægt verði að skoða áhrif meðferðanna á efnainnihald uppskerunnar og fylgjast með langtímaáhrifum á sýrustig jarðvegsins.