Mikil aukning er á braut um lífræna ræktun matjurta. Nemendur hittust og starfsfólk fór yfir skipulag annarinnar
Nemendum í garðyrkjunámi Landbúnaðarháskóla Íslands fjölgar mikið í haust, en vel á annað hundrað umsóknir bárust á garðyrkjubrautir skólans, sem er ríflega tvöföldun frá fyrri árum. Garðyrkjubrautir Landbúnaðarháskólans eru sex talsins, ylrækt, garð- og skógarplöntur, lífræn ræktun matjurta, skrúðgarðyrkja, blómaskreytingar og skógur og náttúra. Lífræn ræktun matjurta er stærsta brautin í ár með um 50 nemendur.
Í dag er nýnemakynning sem fram fer á Keldnaholti í Reykjavík. ,,Að undanförnu hefur verið unnið að því að skipuleggja húsnæðið á Keldnaholti til þess að færa námið tímabundið af Reykjum vegna vatnstjóns sem varð þar og taka á móti þeim stóru nemendahópum sem hafa skráð sig til náms hjá skólanum. Það hefur gengið vonum framar með samstilltu átaki starfsfólks og nemenda sem hafa sýnt því skilning að við búum við þessar sérstæðu aðstæður, ekki einungis sérreglur vegna Covid-19 heldur nú einnig óvæntu tjóni á Reykjum”, segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans.
Fyrirséð er að kennslan verði á Keldnaholti fram að áramótum meðan unnið er að því að laga skemmdir sem urðu vegna alvarlegs vatnstjóns sem varð á húsnæði Landbúnaðarháskólans að Reykjum í Ölfusi þar sem garðyrkjunámið hefur farið fram.
Miklar framkvæmdir hafa verið á Reykjum í sumar þar sem unnið er að endurnýjun Garðskálans þar, viðhaldi á skólastjórahúsi sem nú hýsir Nemendagarða, auk þess sem unnið er að endurbótum á Fífilbrekku, sem er fyrrum bústaður Jónasar frá Hriflu, með styrk frá Húsafriðunarsjóði.