Grein um meistaraverkefni Ernu Báru í Verktækni - Tímariti VFÍ

Grein um meistaraverkefni Ernu Báru Hreinsdóttur, Ferðavenjur grunnskólabarna á landsbyggðinni. Hefur þjóðvegurinn áhrif?, er komið út á heimasíðu Verkfræðingafélags Íslands og kemur út í blaði félagsins, Verktækni, núna í ágúst. Höfundar að greininni eru Erna Bára Hreinsdóttir, Dr. Sigríður Kristjánsdóttir og Dr.-Ing. Haraldur Sigþórsson.

Greinina má nálgast hér https://www.vfi.is/media/utgafa/Ferdavenjur.pdf

Um verkefni Ernu Báru:              

Síðustu áratugi hefur bíllinn orðið æ stærri hluti af okkar daglegu tilveru. Stundum er gert grín að því að Íslendingar noti einkabílinn í stað yfirhafnar.

Í skipulagsáætlunum af öllu tagi er nú meiri áhersla á sjálfbærni og ýmsa umhverfisþætti í tengslum við hana. Þar með á lýðheilsu. Með því að nota annan fararmáta en bílinn minnkum við útblástur, slit á umferðarmannvirkjum og minni líkur eru á að endurbyggja þurfi umferðarmannvirki til að koma til móts við umferðaraukningu. Slíkur lífsstíll stuðlar einnig að heilbrigði. Hvatning berst frá ýmsum opinberum aðilum um að landsmenn temji sé heilbrigðari lífsstíl, til að mynda með því að ganga eða hjóla til skóla og vinnu. Slíkt ætti að skila sér í betri líðan og kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna  lífstílstengdra sjúkdóma, svo sem sykursýki 2 og hjartasjúkdóma, ætti að minnka. Áhersla er lögð á að kenna börnum heilbrigða lífshætti til dæmis með því að þau gangi í skólann.

Rannsókn sýnir að um 84% grunnskólabarna í Reykjavík ferðast með virkum hætti, þ.e. gangi eða hjóli,  í skólann. En hvernig er staðan á landsbyggðinni? Er lífsstíll grunnskólabarna með öðrum hætti hvað varðar virkan ferðamáta?

Í ljós kemur að hlutfall barna sem ferðast með virkum hætti til skóla í þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni er talsvert lægra eða 66%. Aðstæður innan þeirra þéttbýliskjarna sem verkefni þetta náði til eru ólíkar því sem gengur og gerist í höfuðborginni þar sem þjóðvegur liggur um íbúabyggð. Virkur ferðamáti þeirra grunnskólabarna í þéttbýli á landsbyggðinni sem ekki þurfa að fara yfir þjóðveg á leið sinni til skóla er 77% sem er nokkuð nærri því hlutfalli sem er í Reykjavík. Hlutfall barna sem ferðast með virkum ferðamáta og þurfa að þvera þjóðveg á leið sinni til skóla er umtalsvert lægri eða 40%. Því má draga þá ályktun að lega þjóðvegar um skólahverfi hafi áhrif á ferðavenjur skólabarna á landsbyggðinni. Niðurstöður þessar eru gagnlegt tæki fyrir sveitarfélög við gerð skipulagsáætlana.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image