Á myndinni sem tekin var á afmælishátíð Reykja sumardaginn fyrsta 2019 sést er Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- & endurmenntunardeildar, og umhverfisnefnd skólans tekur við grænfánanum af Katrínu Magnúsdóttur, fulltrúa Landverndar.

Grænfána flaggað á Reykjum

Garðyrkjuskóli LBHÍ Reykjum- stoltur skóli á grænni grein. Í byrjun skólaárs 2018 kviknaði sú hugmynd að starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi myndi bætast í hóp rúmlega 200 íslenskra skóla sem státað gætu af Grænfánanum, alþjóðlegri umhverfisviðurkenningu. „Skóli á grænni grein“ er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla.

Nú er Grænfánaskóla að finna í um 70 löndum. Hér á landi eru þeir um 230 talsins, á öllum skólastigum. Íslenskir framhaldsskólar og háskólar með grænfánaviðurkenningu eru um 15 talsins.

„Til að hljóta þessa viðurkenningu þurfti skólinn að fara í gegnum grunnvinnu sem hefur tekið talsverðan tíma. Fyrsta verkefnið var að stofna umhverfisnefnd sem er samstarfshópur nemenda og starfsfólks. Í samvinnu við verkefnisstjóra Landverndar voru valin ákveðin þemu og markmið sett til að ná utan um þau. Við völdum í upphafi þemu sem lúta annars vegar að neyslu og úrgangi og hins vegar náttúruvernd. Á komandi starfsári mun umhverfisnefnd síðan bæta við nýjum áherslum í grænfánavinnunni. Hér á Reykjum erum við svo lánsöm að mörg af markmiðunum sem við settum okkur í grænfánavinnunni höfðu þegar verið uppfyllt. Landbúnaðarháskólinn og ekki síst starfsstöðin að Reykjum telst vera í farabroddi í umhverfismennt hér á landi. Á öllum stigum námsins er lögð áhersla á umhverfismál, náttúruvernd, vistheimt og sjálfbærni, enda stendur það efni jafnt nemendum sem garðyrkjufaginu öllu nærri. Í skólastarfinu eru gildi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð í heiðri“ segir Ingólfur Guðnason. 

Starfsmenn og nemendur voru virkir í að koma þessu verkefni áleiðis. Farið var í gegnum reglubundna vinnu sem leidd var í fyrstu af fulltrúum Landverndar og gerðar voru ýmsar endurbætur á verkferlum í tengslum við neyslu og úrgang, efnum til þrifa var skipt út fyrir Svansmerktar vörur og flokkun úrgangs í skólahúsi og gróðrarstöð var lagfærð þar sem úr mátti bæta. Höfðu nemendur frumkvæði að margvíslegum umbótum, ekki síst hvað varðar flokkun úrgangs í þeirra starfsumhverfi, kennslustofum, mötuneyti og tilraunahúsi. Starfsólk á Reykjum lét sitt heldur ekki eftir liggja og kom með ýmsar gagnlegar ábendingar.

Náttúruvernd, annað þemað okkar fólst í að gera drög að greinargerð um náttúrufar heimalands Reykja, þar sem við lýstum náttúrufari, þmt. gróðurfari og fuglalífi og ágripi af jarðfræði heimalandsins. Verkefni sem okkur langar að vinna í framhaldinu er að skoða Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna með tilliti til starfsins á Reykjum, bæði innra starfs og hvað Reykir geta gert til að færa enn aukna þekkingu til garðyrkjufagsins gegnum kennslustarfið.

Umhverfissáttmáli er afrakstur starfs fyrsta áfanga og endurspeglar þær áherslur sem Reykir hafa sett sér í umhverfismálum í náinni framtíð. Ákveðið var að styðjast við núgildandi umhverfisstefnu LBHÍ þar sem flest áhersluatriði okkar koma fram og eiga að mestu leyti við um okkar umhverfi á Reykjum.

Grænfánaviðurkenningin sem Landvernd veitti starfsstöðinni á Reykjum við hátíðlega athöfn á afmælishátíð Garðyrkjuskóla LBHÍ á sumardaginn fyrsta 25. apríl 2019 er í fullu samræmi við þau grunngildi sem Landbúnaðarháskólinn vinnur eftir að okkar mati. Starfsfólk og nemendur á Reykjum ætlar að halda ótrauð áfram því starfi sem hafið er.

Ingólfur Guðnason
fagbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu LBHÍ,
Reykjum, Ölfusi

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image