Frá stofnfundi Gleipnis á Birfröst. MYND Háskólinn á Bifröst

Gleipnir - Nýtt nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi stofnsett

Stofnfundur Gleipnis nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi ses. var haldinn í Háskólanum á Bifröst þriðjudaginn 10. maí.

Markmiðið með stofnun Gleipnis er að skapa umhverfi fyrir samvinnu, þróun og miðlun ólíkrar þekkingar á sviði rannsókna, nýsköpunar og sjálfbærni með það að leiðarljósi að styrkja samkeppnisstöðu íslensks samfélags, efla atvinnu og byggðaþróun og auka lífsgæði í landinu.

Nýja setrinu er ætlað að vera virkur þátttakandi í að ná fram markmiðum og skuldbindingum stjórnvalda á sviðum nýsköpunar og fræðslu á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftslagsmála, auk þess að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni.

Stofnaðilar eru eftirtaldir: Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun, Borgarbyggð, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Háskóli Íslands, Íslandsstofa, Orkustofnun, Breið-Þróunarfélag, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Hugheimar – frumkvöðla- og nýsköpunarsetur og Auðna tæknitorg.

Samkvæmt stofnsamningi Gleipnis verður megináhersla starfseminnar á næstu fimm árum lögð á eftirtalin atriði:

  • Móta aðgerðaáætlun um matvælalandið Ísland til ársins 2050 með fimm ára vörðum.
  • Styrkja nám á sviði matvælaframleiðslu á framhalds- og háskólastigi.
  • Efla rannsóknir á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu í þágu loftslagsmála, náttúruverndar, landgæða og nýsköpunar í framleiðslu.
  • Taka þátt í að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla til að treysta fæðuöryggi.
  • Efla innlenda landbúnaðarframleiðslu með það að markmiði að tryggja fæðu- og matvælaöryggi.
  • Styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar og annarra greina í dreifbýli á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis, náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.
  • Styðja við rannsóknir og nýsköpun á sviði lífrænnar framleiðslu og akuryrkju.
  • Ýta undir framtak og frumkvæði bænda með fræðslu, ráðgjöf, þróun og nýsköpun.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans við Bifröst: „Háskólinn á Bifröst hefur sett sér það markmið að auka samfélagsþátttöku sína og áhrif. Íslenskt samfélag stendur frammi fyrir krefjandi áskorunum þar sem háskólinn vill og getur verið virkur þátttakandi. Með stofnun Gleipnis – nýsköpunar- og þróunarseturs er tekið mikilvægt skref á þeirri vegferð þar sem samvinna margra aðila mun búa til spennandi sóknarfæri fyrir íslenskt samfélag. Háskólarnir í Borgarfirði verða þar leiðandi þar sem þeir tefla fram sérþekkingu sinni á sviði landbúnaðar og viðskipta.“

„Heiti nýsköpunar- og þróunarsetursins er sótt í norræna goðafræði, en Gleipnir nefndist galdrafjötur er æsir notuðu til að binda Fenrisúlf. Landbúnaðarháskóli Íslands leggur áherslu á framsækni og að hugsa stórt, og með vísan til Gleipnis að hugsa út fyrir rammann og gera hið ómögulega mögulegt, segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands."

Á stofnfundinum voru eftirtaldir aðilar kjörnir i stjórn Gleipnis nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi ses; Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands, Margrét Jónsdóttir Njarðvík, Háskólanum á Bifröst, Sigurður H. Markússon, Landsvirkjun, Þórdís S. Sigurðardóttir, Borgarbyggð og Páll S. Brynjarsson, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Þá voru kjörin í varastjórn Áshildur Bragadóttir, Stefán V. Kalmansson og Pétur Þ. Óskarsson.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframsleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image