Nemendur við vinnu sína við að móta Pikachu
Pikachu car samvinnuverkefni íslensku og dönsku nemanna
Sýnishorn af grænu þaki
Kryddjurtaveggur
Nemendur á garðyrkjubrautum LbhÍ fóru nýlega í vinnusmiðju til Beder í Danmörku. Heimsóknin er hluti af Nordplus verkefninunu Nordic Horticulture en í því eru sex garðyrkjuskólar frá Eystrasalti og Norðurlöndunum. Tilgangur verkefnisins er að kynna fyrir nemendum þessara skóla vinnuaðferðir og tækni sem tíðkast í hinum samstarfsskólunum. Það er gert með því að heimsækja einn af skólunum þar sem haldin er vinnusmiðja í tveimur til þremur sérgreinum þess skóla.
Jordbrugets Uddannelses Center í Beder hélt fyrstu vinnusmiðjuna í byrjun nóvember þar sem nemendum í skrúðgarðyrkju, garðplöntuframleiðslu og blómaskreytingum var boðið að koma og læra eitthvað nýtt í sinni grein. Skrúðgarðyrkjunemar lærðu að leggja granítkubba og mosaík stein í mynstur af ýmsu tagi, garðplöntunemar lærðu mismunandi ágræðsluaðferðir sem notaðar eru í framleiðslu ávaxtatrjáa og blómaskreytinganemar unnu með þemað jólabrúðkaup og útbjuggu skreytingar við hæfi.
Næsta vinnusmiðja fer fram á Reykjum í apríl á næsta ári. Þar verður boðið upp á verkefni fyrir skrúðgarðyrkjunema, skógræktarnema og ylræktarnema.
Með þátttöku í verkefninu eiga að opnast frekari möguleikar fyrir nemendur að ljúka hluta af sínu verknámi í öðru landi en heimalandi. Auk þess eru nemendur betur undirbúnir fyrir vinnu í sínu fagi þegar þeir hafa kynnst fleiri verkum og verkþáttum í sinni grein.
„Ég held að allir nemendur græði á því að kynnast því hvað garðyrkjuskólar í löndunum í kringum okkar eru að kenna. Sama má segja um kennarana“ segir Ágústa Erlingsdóttir, verkefnastjóri og brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar. „Við sáum margt spennandi, m.a. sniðugar lausnir í gerð gróðurveggja og grænum þökum. Þetta eru hugmyndir sem að nemendur garðyrkjubrauta geta sannarlega nýtt sér hér á landi.“
Verkefnið er styrkt af Nordplus og er LbhÍ sá skóli sem stýrir því. Í verkefninu er sex garðyrkjuskólar:
Jordbrugets UddannelsesCenter Aarhus frá Danmörku
Kold College frá Danmörku
Hvilan Utbildning frá Svíþjóð
Axxell Utbildning frá Finnlandi
Rapina Aianduskool frá Eistlandi
Þessar myndir og fleiri frá vinnustofunni er að finna á Facebook síðu Skrúðgarðyrkjubrautar Garðyrkjuskóla LbhÍ. Áhugasamir eru hvattir til að líka við þá síðu til að sjá hvað nemendur eru að gera í náminu.