Fyrirlestur um meistararitgerð: Hefðbundnar grasnytjar á Íslandi með samanburð við Noreg og nágrannalönd

Þriðjudaginn 20. maí kl. 14. heldur Guðrún Bjarnadóttir opinn fyrirlestur um meistararitgerð sína: Hefðbundnar grasnytjar á Íslandi með samanburð við Noreg og nágrannalönd. Fyrirlesturinn er seinni hluti meistaravarnar, en áður hefur farið fram lokuð vörn sem Guðrún hefur þegar staðist. Prófdómari er Starri Heiðmarsson gestalektor við LbhÍ og sérfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands. Leiðbeinendur eru Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Björn Þorsteinsson prófessorar við LbhÍ. Athöfninni stjórnar Hlynur Óskarsson deildarforseti umhverfisdeildar. Fyrirlesturinn verður í Ásgarði (Borg) á Hvanneyri.

Í útdrætti segir Guðrún Bjarnadóttir: „Markmið ritgerðarinnar er að skoða hvar heimildir um íslenskar grasnytjar er að finna og bera saman við grasnytjar í Noregi og öðrum nágrannalöndum. Meðal heimilda um grasnytjar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eru gamlar lögbækur; Grágás og Búalög, ásamt Íslendingasögunum. Eftir það virðist vera gat eða gloppa í heimildagrunninum fram að upplýsingaöldinni, þegar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson skrifa Ferðabók sína. Frá og með þeim tíma eru til góðar heimildir um grasnytjar á Íslandi. Bent er á að fyrr á öldum var ritun heimilda í höndum menntamanna, presta, sýslumanna og annarra höfðingja meðan grasnytjarnar sjálfar voru að langmestu leyti í höndum kvenna. Því gæti misræmis gætt í raunverulegum nytjum og frásögnum af nytjunum fyrr á öldum. Í ritgerðinni er ítarlega fjallað um mikilvægustu þætti grasnytja; t.d. á hvönn (Angelica archangelica), fjallagrösum (Cetraria islandica) og melgresi (Leymus arenarius).

Kerfisbundið er farið í gegn um umfangsminni nytjar, eins og til matar og drykkjar. Einnig notkun sem krydds, íblöndunarefnis til að bæta geymsluþol matvæla, og til að drýgja mjöl, kaffi eða tóbak. Ennfremur notkun til lækninga, sem byggingarefni, búsáhöld og verkfæri, til eldsneytis, skreytinga, blekgerðar, í lampakveiki, til að bæta lykt í hirslum og híbýlum, sem mjólkurhleypi og til ullarlitunar.

Samanburður á grasnytjum á Íslandi, í Noregi og í öðrum nágrannalöndum leiðir í ljós að sumar nytjar eru mjög svipaðar í löndunum en aðrar eru mjög ólíkar. Í ritgerðinni eru færð rök fyrir því að ólíkar nytjar megi rekja til náttúrufars á Íslandi og að þær nytjar hafi því trúlega þróast á Íslandi frá landnámi. Fjöldi háplantna í Noregi er um það bil þrisvar sinnum meiri en á Íslandi og hafa landnámsmennirnir því þurft að laga sig að nýjum aðstæðum og mæta nýjum þörfum á nýjum slóðum. Má þar nefna nýtingu á melgresi sem var mikið notað af Íslendingum en Norðmenn nýttu það ekki, enda aðrir valkostir til staðar í Noregi. Nytjar af fjallagrösum eru svipaðar en ólíkar hvað magnið varðar því Íslendingar nýttu fjallagrösin mikið sem kolvetnisgjafa vegna kornleysis en það gerðu Norðmenn hinsvegar ekki. Íslendingar virðast einnig hafa nýtt sér hvönnina í miklum mæli eins og í Noregi en með ólíkum áherslum þó.“

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image