Michał Zasada, rektor Lífvísindaháskólans í Varsjá, var á ferðinni hér á landi í október vegna fundar UNIgreen-háskólanetsins sem báðir háskólar eru aðilar að. Farið var í heimsókn til Háskóla Íslands og rætt við Jón Atla Benediktsson rektor HÍ og Ingibjörgu Gunnarsdóttur, aðstoðarrektor vísinda við HÍ, um formlegt samstarf um dýralæknanám. Hugmyndin er að tvö fyrstu árin verði kennd á Íslandi, en nemendur fari síðan til SGGW í Póllandi og haldi námi sínu áfram þar.
Sótt hefur verið um styrk til Samstarfssjóðs háskólanna fyrir undirbúningi verkefnisins. LBHÍ leiðir verkefnið, en auk HÍ koma Keldur og Hólar að því. Markmið verkefnisins er að hefja formlegt samstarf um dýralæknanám milli þessara aðila og Lífvísindaháskólans í Varsjá í Póllandi (SGGW). Hugmyndin er að fyrstu tvö árin yrðu kennd á Íslandi en nemendur færu síðan til SGGW í Póllandi og héldu námi sínu áfram þar.