Hópurinn við heimsókn á Hvanneyri. Frá vinstri, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, Mark Day, Helena Guttormsdóttir, Hólmfríður Arnardóttir og Ragnhildur H. Jónsdóttir.

Fulltrúar frá Fuglavernd og RSPB sækja skólann heim

Þann fjórða nóvember fengum við skemmtilega gesti, en þá komu framkvæmdastjóri Fuglaverndar Hólmfríður Arnardóttir og Mark Day sérfræðingur frá RSPB Royal Society for the Protection of Birds í Bretland í heimsókn.

Erindið var að skoða RAMSAR svæðið í Andakíl en Ramsar er samningur um verndun votlendis með alþjóðlega þýðingu. Friðlandið nær yfir Hvanneyrarjörðina og hluta af 13 öðrum nærliggjandi jörðum í Andakíl og var fyrst friðað árið 2002. Svæðið var stækkað árið 2011 og er nú rúmlega 3.000 ha að stærð. Árið 2013 var það svo skráð á lista Ramsar-samningsins á þeim forsendum að á svæðinu er mikill fjölbreytileiki votlendis og margar fuglategundir nýta sér svæðið ásamt því að vera einn af mikilvægustu áningarstöðum grænlenska blesgæsastofnsins á Íslandi.

Fyrsti áfangi Gestastofu friðlands fugla í Andakíl, sem var opnaður í gömlu fjóshlöðunni við Landbúnaðarsafn Íslands í vor, var einnig heimsótt ásamt því að skoða starfsstöð skólans á Hvanneyri, hitta sérfræðinga hans og ræða samstarfsmöguleika til framtíðar.

Fjörugar umræður urðu sem m.a. gætu tengst vinnu Tormods Amundsen arkitekts en hann hélt fyrirlestur og vinnustofu fyrir nemendur fyrr í haust. Tormod sérhæfir sig í fuglaskoðunarskýlum og arkitektúr til náttúruupplifunar og rekur stofuna Biotope. Hópurinn var sammála um að taka næstu skref og vinna að því að kom upp nýju samstarfsverkefni sem myndi tengjast næsta fasa í uppbyggingu Gestastofunnar og nýta þá miklu möguleika sem svæðið býr yfir með samþættingu landbúnaðar, vistfræði og umhverfisskipulags. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image