Fuglarnir á Hvanneyri gefa lífinu aukið gildi

Síðustu dagana desember var hin árlega vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands, en talningar af þessu tagi hafa verið framkvæmdar af sjálfboðaliðum frá árinu 1952. Talið er á 342 svæðum á landinu og eru talningarmenn á annað hundrað. Markmið vetrarfuglatalninga er að kanna hvaða fuglategundir dvelja hér að vetrarlagi, meta hversu algengir fuglarnir eru og í hvaða landshlutum þeir halda sig. Upplýsingar sem fást úr talningunum nýtast einnig til að fylgjast með langtímabreytingum á stofnum margra tegunda.

Ragnar Frank Kristjánsson lektor við LbhÍ hefur séð um að telja fugla á Hvanneyri undanfarin sex ár.  Talningarsvæðið er Arnarflöt, skjólbeltin, vegslóðinn að Andakílsá, Stekkjarholt, Tungutúnsborg, engjarnar, Gamli staður, umhverfi Þórulágar, Ásvegur og Túngata. "Talningin á Hvanneyri gekk mjög vel, óvenju mikið var af fuglum í húsagörðum, sem sýnir að íbúar á Hvanneyri eru duglegir að fóðra smáfuglana í vetrahörkunni. Alls sáust átta tegundir og 272 fuglar, en algengast var að sjá snjótittlinga, stara, hrafna og stokkendur. Fyrir utan þessar tegundir sáust álftir, músarindill, skógarþröstur og fálki. Undanfarin ár hafa alltaf sést rjúpur en ekki nú. Hins vegar sá ég fálka sem er óvenjulegt. Ég velti því fyrir mér hvort rjúpurnar hafi lent á jólaborði fálkans. Annað sem breyst hefur er að stokkendurnar eru hættar að halda sig í skurðum út á engjum. Þær hafa flutt sig og finnst tjörnin við fráveitustöð Orkuveitunnar við Þórulág heppilegra búsvæði. Á sunnudeginum eftir talningu sást svartþröstur í garðinum mínum og haförn á flugi yfir Ásgarði," sagði Hvanneyringurinn Ragnar Frank Kristjánsson í nýárskveðju.

Meðfylgjandi mynd tók Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image