Þriðjudaginn 12. september 2023 lauk þriggja daga vinnufundum og ráðstefnu hjá ECLAS við Mendel háskólann við Brno í Tékklandi, en það eru samtök háskóla í Evrópu sem kenna landslagsarkitektúr og standa vörð um góða menntu í faginu. LBHÍ og námsbrautin okkar hefur verið aðili að ECLAS í 20 ár og sent reglulega fulltrúa á fundina. Að þessu sinni var fundurinn sérstakur og frábær viðurkenning á því að námið okkar við LBHÍ býður nemendum okkar góða menntun og undirbúning fyrir frekara nám.
Á verðlaunaafhendingu í Lednice kastalanum í Tékklandi hlaut Jóna Guðrún Kristinsdóttir framúrskarandi nemenda verðlaun frá ECLAS í bakkalár námi / 1st Cycle Outstanding Student Award og er það í fyrsta skipti sem útskrifaður nemandi af námsbraut í landslagsarkitektúr við LBHÍ hlýtur þessa viðurkenningu.
Í þakkarorðum Jónu komu fram innilegar þakkir til Landbúnaðarháskólans og allra kennara við brautina, sérstakar þakkir fengu samnemendur fyrir góða vináttu og öflugt samstarf í gegnum námið.
Að lokum þakkaði hún ECLAS kærlega fyrir viðurkenninguna sem er henni hvatning til að leggja sitt af mörkum í betrumbótum á því umhverfi sem við sköpum.