Óskað er eftir nemendum í tvö meistaraverkefni tengdum endurheimt birkiskóga. Ljósmynd ÁA

Fjölbreytt og þverfagleg meistaraverkefni við rannsóknir er tengjast endurheimt birkiskóga

Nú eru í boði fyrir nemendur við Landbúnaðarháskóla Íslands tvö meistaraverkefni sem tengjast inn í verkefnið Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld – áskoranir, leiðir og ávinningur (BirkiVist). Í boði eru 5-10 mánaða laun fyrir hvort meistaraverkefni.

BirkiVist er stórt, fjölbreytt og þverfaglegt rannsóknaverkefni sem hlotið hefur styrk úr markáætlun Rannís um samfélagslegar áskoranir. Að verkefninu standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands og Skógræktin í samstarfi við fleiri stofnanir, sprotafyrirtæki og aðra aðila á sviði landgræðslumála.

Endurheimt birkivistkerfa er mikilvæg leið til að varðveita líffræðilega fjölbreytni og gefur möguleika á að binda gríðarlegt magn koltvísýrings úr andrúmsloftinu í jarðvegi og gróðri. Markmið BirkiVistar er að stuðla að endurheimt birkivistkerfa á stórum skala og greina umhverfislegan og samfélagslegan ávinning. Áhersla er lögð á þverfræðilega nálgun og að niðurstöðurnar nýtist til að þróa vistfræðilegar og stjórnsýslulegar lausnir og til smíða á verkfærum til að auka skilvirkni við endurheimt. Afrakstur verkefnisins mun styrkja stefnumótun á sviði umhverfismála og hjálpa Íslandi við að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Námsverkefnin sem í boði verða við LbhÍ eru:

Meistaranemi 1:

Verkefnið er þverfaglegt og snýst um að greina kerfislæga og samfélagslega þætti sem hafa eða geta haft jákvæð eða neikvæð áhrif á vernd og endurheimt birkivistkerfa. Niðurstöðurnar verða nýttar til að þróa verkferla til að bæta samsetningu og virkni stjórnkerfisins (e. governance system) sem tengjast vernd, endurheimt og nýtingu birkivistkerfa.

Nánari upplýsingar veitir Þórunn W. Pétursdóttir umsjónarmaður verkþáttarins (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Meistaranemi 2:

Verkefnið er þverfaglegt og snýst um að meta mikilvægi og áhrif ólíkra haghafa á vernd og endurheimt birkivistkerfa. Samfélagslegar áskoranir og tækifæri verða greindar og hvernig stuðla megi að árangursríkri þátttöku og samstarfi þvert á geira.

Nánari upplýsingar veitir Jónína S. Þorláksdóttir umsjónarmaður verkþáttarins (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)

Verkefnin eru fjölbreytt hvað varðar efnistök og aðferðir og verða unnin í nánu samstarfi sín á milli sem og við aðra verkþætti innan BirkiVist og ættu því að geta hentað nemum á flestum námsleiðum skólans. Nemendur munu fá tækifæri til að vinna saman í öflugum rannsóknahópi með vísindafólki frá mörgum stofnunum óháð því í hvaða deild þeir eru skráðir.

Umsækjendur um meistaraverkefnin skulu hafa lokið BS eða BA námi. Í báðum verkefnum er áhugi og þekking á vistfræði kostur svo og gott vald á íslenskri tungu í ræðu og riti. Reynsla af vettvangsvinnu er æskileg, sjálfstæð vinnubrögð og hæfni til að vinna sem hluti af teymi eru nauðsynleg. Æskilegt er að nemendur geti hafist handa við undirbúning sem fyrst.

Umsóknir og fyrirspurnir skal senda á umsjónarmenn viðkomandi námsverkefna (sjá hér að ofan) eða á verkefnisstjóra Ásu L. Aradóttur (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Ferilskrá og einkunnir úr grunnnámi skulu fylgja umsókn.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image