Fjallað um hatur og mismunun á Jafnréttisdögum 2025

Jafnréttisdagar háskólanna hefjast í dag 10. febrúar og standa til 13. febrúar

Fjallað um hatur og mismunun á Jafnréttisdögum 2025

Hatursorðræða og mismunun eru meginþemu Jafnréttisdaga sem fara fram í háskólum landsins dagana 10.-13. febrúar. Möguleikar gervigreindar til að draga úr mismunun á vinnumarkaði, samspil hatursorðræðu við gervigreind, samfélagsmiðla og upplýsingaóreiðu, Kvennaárið 2025, herferð Bandaríkjaforseta gegn jafnréttismeðvitund og mannréttindum og stjórnmálavæðing lögreglu er aðeins brot af þeim fjölbreyttu viðburðum sem verða í boði á dögunum í ár en þeir verða ýmist á staðnum eða í streymi.

Þetta er í 17. sinn sem Jafnréttisdögum er fagnað en þeir hafa í gegnum tíðina rutt brautina fyrir frjóa og róttæka umræðu um jafnréttismál frá ýmsum hliðum. Dagskráin er afar metnaðarfull og samanstendur af yfir 20 viðburðum sem tengjast jafnrétti og málefnum líðandi stundar. Viðburðirnir fara fram ýmist fram á íslensku eða ensku eða báðum tungumálum.

Dagskrá Jafnréttisdaga hefst í hádeginu mánudaginn 10. febrúar með streymisviðburði undir yfirskriftinni „Frá algrími til jafnréttis: Getur gervigreind unnið gegn mismunun á atvinnumarkaði?“ Þar taka til máls Dilys Sharona Quartey, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem rannsakað hefur áhrif gervigreindar á atvinnumarkaðinn, og Sigyn Jónsdóttir, tæknistjóri og meðstofnandi Öldu, nýsköpunarfyrirtækis sem þróar hugbúnaðarlausnir og gagnvirka fræðslu fyrir vinnustaði til að stuðla að fjölbreytileika og inngildingu. Páll Rafnar Þorsteinsson stjórnar umræðum.

Alla vikuna verður svo boðið upp á viðburði í og á vegum háskólanna og samstarfsaðila þeirra. Auk ofangreindra umfjöllunarefna verður m.a. fengist við þyngdarhluthlaust heilbrigði, upplifun nemenda af fordómum vegna þjóðernis, ómeðvitaða fordóma og viljann til að læra, inngildandi námsmat, sniðmengi trans- & tæknimála og kærleiksorðræðu. Einnig verður boðið upp á jafnréttisvöfflur, einhverfuhittinga, texta- og hljóðverkasýningu og vinnusmiðju um leiklist hinna kúguðu ásamt því sem fjallað verður um norrænt jafnrétti og konur á flótta, nýlenduhyggju og stöðu Peking-sáttmálans um kynjajafnrétti sem er 30 ára í ár.

Viðburðir Jafnréttisdaga eru opnir öllum áhugasömum og hægt er að kynna sér heildardagskrána á jafnrettisdagar.is

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image